fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

„Fræga fólkið“ á framboðslistunum: Sjónvarpsstjarna, þungarokkari og söngdíva

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 28. maí 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðustu helgi gengu kjósendur að kjörborðinu og völdu fulltrúa sína í sveitarstjórnir. Á framboðslistum var glás úrvalsfólks og vitaskuld einhverjir sem skarað hafa fram úr eða vakið athygli á öðrum sviðum þjóðlífsins. DV tók saman þekktustu nöfnin.

 

Smink og fjölskylduhjálp

Hárgreiðslu- og förðunarmeistarinn Karl Berndsen situr í 2. sæti lista Flokks fólksins í þeirra fyrstu borgarstjórnarkosningum. Líf Karls var dans á rósum en umturnaðist þegar hann varð öryrki eftir krabbamein og ákvað hann því að beita sér fyrir þá sem hafa orðið undir í þjóðfélaginu. Ásgerður Jóna, sem er í 3. sæti, þekkir þá baráttu vel enda hefur hún séð um að útdeila matargjöfum og fleiru sem formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.

Sagnfræðingurinn og sjónvarpsstjarnan

Guðjón Friðriksson er manna fróðastur um sögu Reykjavíkur og hefur heillað landann upp úr skónum í Kiljunni þar sem hann leiðir áhorfendur um fortíðina. Skipar hann nú 21. sæti á lista Samfylkingarinnar í borginni. Aðeins neðar á listanum, í 34. sæti, má finna aðra persónu sem hrifið hefur áhorfendur Ríkissjónvarpsins, Steinunni Ásu Þorvaldsdóttur, sem stýrir þáttunum Með okkar augum. Steinunn Ása, sem er með þroskahömlun, var áður frambjóðandi hjá Bjartri framtíð.

Dívan

Eftir slakt gengi Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum og erfiðleika borgarfulltrúanna við að aðgreina sig frá meirihlutanum á sannfærandi hátt var ákveðið að gefa listanum nýja ásýnd. Þar fara nú fremst í flokki Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir sem hafa verð vel kynnt borgarbúum en færri vita að söngdívan Helga Möller tók 41. sæti listans. Helga olli fjaðrafoki fyrir skemmstu vegna hispurslausra orða um íslenska framlagið til Eurovision og má búast við sams konar hreinskilni í sal borgarstjórnar, nái hún kjöri.

Spyrillinn og rokkarinn

Vinstri Græn hafa iðulega haft glás af þekktum menningarfrömuðum á sínum listum í borginni og árið í ár er engin undantekning. 15. sætið skipar rokkarinn og Þingeyingurinn Þráinn Árni Baldvinsson sem kennir börnum á daginn og þeytir flösu með Skálmöld á kvöldin. Í 23. sæti situr Stefán Pálsson, spurningasjéní og bjóráhugamaður. Eiginkona Stefáns er Steinunn Þóra Árnadóttir, sem situr á Alþingi fyrir sama flokk.

Grínistarnir

Á lista Kvennahreyfingarinnar má finna grínista af gamla og nýja skólanum. Samfélagsmiðlastjarnan með rauða hárið, Bylgja Babýlons, er þar í 12. sæti og hin margreynda Edda Björgvinsdóttir í 22. sæti, en hún var á lista Samfylkingarinnar í síðustu alþingiskosningum. Sama hvernig fer á laugardag verður augljóslega glatt á hjalla í herbúðum Kvennahreyfingarinnar.

Byltingarkonan

Það er stígandi í framboði Sósíalista og þeir hafa náð að kynna oddvita sinn, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, ágætlega. En í 6. sæti á listanum er baráttukona sem nýverið hristi upp í atvinnulífinu þegar hún var kjörin formaður Eflingar með miklum glæsibrag. Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin með 80 prósent atkvæða þá. Ef Sósíalistar ná manni inn í borgarstjórn yrði það álíka glæsilegur árangur.

Boltastjórarnir bítast í Kópavogi

Merkileg tilviljun átti sér stað í Kópavogi þegar þrír fyrrverandi framkvæmdastjórar í boltaíþróttum röðuðust á lista og enginn í sama flokki. Geir Magnússon, sem áður stýrði Knattspyrnusambandi Íslands er oddviti Miðflokksins. Einar Þorvarðarson, fyrrverandi markvörður og stjóri Handknattleikssambandsins er í öðru sæti hjá sameiginlegum flokki Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Pétur Hrafn Sigurðsson, fyrrverandi stjóri Körfuknattleikssambandsins leiðir Samfylkinguna. Hver þeirra mun spila djarfasta sóknarboltann mun koma í ljós á laugardag.

Stjörnulöggur í Hafnarfirði

Óhætt er að segja að tveir af landsins þekktustu laganna vörðum takist á í Hafnarfirði. Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, skipar 2. sæti Bæjarlistans en hann hefur áður reynt fyrir sér með Framsóknarflokknum og var formaður Samstöðu eftir að Lilja Mósesdóttir sagði af sér.

Hjá Framsóknarflokknum má finna Guðmund Fylkisson í 13. sætinu en hann hefur verið mikið í fjölmiðlum í tengslum við ungmenni í vanda. Guðmundur tekur á sig það erfiða verkefni að hafa uppi á krökkunum, vinna traust þeirra og bjarga ef hann getur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir