fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

Didda um marijúana: „Það hjálpar mér svo sannarlega að þrauka“

Didda skáldkona hefur gert dyraat hjá dauðanum – Lenti í alvarlegu slysi á barnsaldri – Fékk rangar greiningar og lyfjaeitrun – Pönkari, nektarmódel og verðlaunaleikkona

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 3. júlí 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurlaug Didda Jónsdóttir er þúsundþjalasmiður: Eddu-verðlaunaleikkona, menntuð töskugerðarkona, fyrrverandi ruslakona, nektarmódel, starfsmaður á Grund og uppvaskari – en umfram allt skáld. Undanfarin ár hefur Didda glímt við erfið veikindi, að hluta til vegna rangra greininga og alvarlegrar lyfjaeitrunar. Hún segist þó telja rót veikindanna liggja mun dýpra, í slysi sem hún lenti í á barnsaldri en var aldrei tekist á við. Hér fyrir neðan birtist brot úr viðtali Kristjáns Guðjónssonar við Diddu

Vill ekki bæta sársauka í heiminn

Mér finnst ég ekkert hafa opinberað mig. Ég þarf ekki að líta á það þannig. Sólin gerir það ekki, ekki skammast hún sín!

Ljóðabók Diddu, Lastafundur og lausar skrúfur, kom út árið 1995 og vakti nokkra athygli fyrir bersöglar lýsingar á djammlíferni, kynlífsfantasíum og ofbeldi.

Hefur þú aldrei átt erfitt með að opinbera þig svona?

„Mér finnst ég ekkert hafa gert það. Ég þarf ekki að líta á það þannig. Sólin gerir það ekki, ekki skammast hún sín! Hins vegar er þetta líka spurning um hvaða rödd í manni er að tala hverju sinni, er það barnið, unglingurinn, eða einhver önnur? Það getur verið að ég sé krakkinn fastur á ganginum og verði það alltaf.“

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Auk ljóðaplötu við undirleik ólíkra tónlistarmanna gaf Didda út tvær skáldsögur, Erta og Gullið í höfðinu: hetjusaga, á seinni hluta tíunda áratugarins. Síðan þá hefur Didda ekki sent neina bók frá sér, þrátt fyrir að skrifa og teikna daglega.

„Fólk er alltaf að hvetja mig til að skrifa, svo vonandi geri ég það einn daginn. En það þarf að vera þannig að mig langi að gefa það út. Heimurinn er fullur af sársauka, svo af hverju ætti ég bæta við? Mig langar ekki að koma með uppskrift að því hvernig fólk getur fundið meira til, mig langar til að finna uppskriftina að því hvernig maður reddar því. Þegar líkaminn er farinn að skrifa ljóðin sem hann þarf til að reisa sig við, þá gef ég út.“

Didda hefur verið áberandi í menningarlífi Reykjavíkur í gegnum tíðina, en ekki síður á öldurhúsum borgarinnar. Hún segir þó að oft hafi hún frekar verið dæmd fyrir útlit og líkamlegt ásigkomulag fremur en gjörðir – Ísland sé „útlitsgrimmt“ samfélag.

„Sérfræðingar í alls konar lífsstíl ákváðu að ég hlyti að tilheyra ákveðnum efnalífsstíl. Það er eðlilegt! Þegar þú ert kippóttur og sveimhöfuð, þegar augasteinarnir eru stórir af því að vöðvarnir eru svo snúnir, þá ert þú ekki sannfærandi. Þú ert ekki eins og hinir – og ef fólk sér sig ekki í sér þá er eðlilegt að það óttist,“ segir hún og bætir við að oft sé auðveldast að stimpla fólk sem fíkla eða sjúklinga frekar en velta fyrir sér sársaukanum sem það er að kljást við.

Fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að ég gæti notað hass og marijúana. Það hjálpar mér að þrauka.

Aðspurð um vímuefnanotkun svarar hún: „Það er ekki ólöglegt að skemmta sér. Um leið og við megum ekki skemmta okkur þá skulum við vera með læti. Ég var með snúinn gagnaugavöðva og ég held að ég hefði mátt taka svolítið meira dóp við því. En ég var hins vegar alltaf mjög viðkvæm fyrir því, jafnvel þegar ég reyndi. Ég á vini sem kunna alveg að taka dóp og þeim hefur blöskrað hvað ég get lítið,“ segir Didda.

„Eiturlyfjaneysla, sama hvaða nafni hún nefnist, hefur áhrif á miðtaugakerfið, sem er meðal annars í húðinni. Fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að ég gæti notað hass og marijúana. Ég er ekki að segja að þetta lækni nokkurn skapaðan hlut, en það hjálpar mér svo sannarlega að þrauka – og það hjálpar mörgum. Þetta er ekki eins hart og mörg þeirra lyfja sem ég hef fengið, til dæmis lyfin sem ég fékk ofnæmi fyrir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Útskýrir hvernig hún endaði á kynlífsklúbbi í Berlín

Útskýrir hvernig hún endaði á kynlífsklúbbi í Berlín
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ferðast aftur til Íslands eftir hörmulegt slys – Vilja græða sárin og upplifa Reykjavík

Ferðast aftur til Íslands eftir hörmulegt slys – Vilja græða sárin og upplifa Reykjavík
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar“

„Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars