Leiguverð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu mun væntanlega hækka enn frekar á næstunni en það hefur ekki fylgt kaupverði fasteigna að undanförnu. Þetta segir Ari Skúlason sérfræðingur hjá Landsbankanum. Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, tekur undir þetta og segir tengsl vera á milli leiguverðs og kaupverðs.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar er haft eftir Ólafi að spáð sé 6-9 prósent hækkun fasteignaverðs á þessu ári. Í fyrra hafi kaupverð hækkað hraðar en leiguverð og því eigi ekki að koma á óvart að leiguverð hækki hraðar en kaupverð á þessu ári.