Ég var í New York 5. maí síðastliðinn, sem er hátíðisdagur í Mexíkó (Cinqo de mayo) og því mikið um mexíkóskan mat í verslunum í Bandaríkjunum, skraut og drykki. Ég tók með mér litlar tortillur í street-taco stíl heim og fannst tilvalið að prófa þetta í vikunni. Uppskriftin er einföld en það er tilvalið að grilla kjúklinginn eitt kvöldið og nota afgangana í tacos daginn eftir.
1 bakki úrbeinuð kjúklingalæri (Það má nota hvaða kjöt sem er en mér finnst koma besta bragðið af lærum)
Marinering:
1 dl Caj P-kryddolía
1 dl BBQ-sósa að eigin vali
1 tsk. paprikuduft
1 tsk. hvítlauksduft
1 lime kreist yfir
salt og pipar eftir smekk
Meðlætið getur verið alls konar en ég var með kál, litla mangóbita, gúrku og tómata. Mér finnst mikilvægt að skera grænmetið mjög smátt þegar um svona litlar tortillur er að ræða, þá blandast allt betur saman og bragðið nýtur sín.
Salsasósa og sýrður rjómi eru ávallt nauðsynleg í hvaða mexíkóska rétti sem er, sniðugt að hafa nokkra styrkleika af salsasósu ef maður fær gesti í mat. Gott er að skera lime í litla báta og hver og einn kreistir svo yfir sitt taco áður en það er borðað.