Brynjar Níelsson hefur látið mikið á sér kveða í pistlum á Pressunni. Þá er hann iðinn á Facebook. Vekja skrif hans oft athygli og þykja umdeild. Þegar Ísland tapaði fyrir Frökkum í Evrópukeppninni í knattspyrnu sagði Brynjar:
„Jæja, nú er Evrópukeppninni lokið og þá getur maður tekið upp með góðri samvisku fyrri iðju í leiðindum og neikvæðni.“ Þar hótaði Brynjar aðskilnaði ríkis og kirkju vegna framgöngu kirkjunnar í málum hælisleitenda. En Toshiki Toma, prestur innflytjenda, og Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Laugarneskirkju, létu á dögunum reyna á hvort kirkjugrið héldu fyrir tvo hælisleitendur frá Írak sem vísa átti úr landi, líkt og kom fram á Eyjunni en Lögregla mætti í kirkjuna og tók mennina tvo með valdi. Hefur myndbandsupptaka farið eins og eldur í sinu um netið.
Gísli Gunnlaugsson varpaði þá fram eftirfarandi spurningu til Brynjars á Facebook og sagði:
„Ert þú og þið bræður á fésinu aðeins til að vera með leiðindi? Það eina sem kemur frá ykkur er eitthvert röfl dag eftir dag.“ Gústaf Níelsson er bróðir Brynjars og þykir umdeildur nokkuð. Brynjar ákveður í dag að svara spurningu Gísla og hefur svar hans vakið eftirtekt:
„Sá ágæti maður, Gísli Gunnlaugsson, spurði mig í færslu áðan hvort við bræður værum eingöngu á Fésbókinni til að vera með leiðindi og röfl dag eftir dag. Til að svara Gísla þá er það svo að við bræður erum sérfræðingar í leiðindum. Við erum komnir af leiðinlegu fólki langt aftur í ættir. Bróðir minn er heldur leiðinlegri en ég enda haft fleiri ár til að þróa leiðindin. Við bræður erum ekki sammála um allt en erum þó sammála um að fátt er skemmtilegra en leiðinlegt fólk og teljum það vanmetna auðlind. Svo fer jákvæðni og óþarfa hressleiki óendanlega í taugarnar á okkur.“