Lögreglan segir að Raji Afife Azar hafi verið forsprakkinn í skipulagðri glæpastarfsemi þar sem hann fékk fólk, oft fíkniefnaneytendur, til að stela dýru Lego. Hann keypti það síðan af fólkinu fyrir lítinn hluta verðmætis þess og seldi síðan á netinu og varð sér úti um góðan hagnað.
Lögreglan hafði fengið veður af þessari starfsemi Azar og voru nokkrir lögreglumenn því látnir þykjast vera afbrotamenn sem hefðu stolið vörum að verðmæti um 13.000 dollara. Þeir settu sig í samband við Azar og buðu honum vörurnar til kaups. Ákveðið var að þeir myndu hitta Azar og þegar hann hafði „keypt“ vörurnar af þeim var hann handtekinn.
Heima hjá honum fann lögreglan gríðarlegt magn af Lego og öðrum þekktum merkjavörum.
Lögreglan telur að Lego að verðmæti 50.000 dollara hafi verið í húsinu. Við það bætast hinar vörurnar.
Azar situr nú í gæsluvarðhaldi en hann er grunaður um grófan þjófnað, skipulagða glæpastarfsemi, peningaþvætti og svindl.