Geymslur til leigu: Þjónusta sem mætir breyttri þjóðfélagsþróun
Það færist sífellt í vöxt að fólk geymi hluta af sínum eigum í geymslum utan heimilisins en breytt þjóðfélagsþróun hefur aukið mjög þörfina fyrir geymslupláss. „Geymslur til leigu“ er lítið fjölskyldufyrirtæki sem hefur yfir að ráða 300 geymsluplássum í nokkrum stærðum og þar er hægt að geyma eigur sínar til skemmri og lengri tíma á hagstæðu verði. Einn eigandi fyrirtækisins er Sigurður Kiernan og segir hann í samtali við DV að ástæðurnar fyrir aukna geymsluþörf séu nokkrar:
„Krafa er um meiri sveigjanleika á geymslustærð en þeirri sem fylgir íbúðum. Fólk á fleiri hluti en áður og geymslur sem fylgja húsnæði duga oft ekki til. Því er betri kostur að taka hentuga geymslu á leigu þegar þörf er á en að fjárfesta í stærra íbúðarhúsnæði. Einnig er hagstæðara að taka geymslurými á leigu en að nota dýrmæta íbúðarfermetra undir geymslu á hlutum sem sjaldan eru í notkun.“
Um helmingur af viðskiptavinum Sigurðar eru með geymslur í langtímaleigu og geta þeir viðskiptavinir fært sig á milli geymslustærða ef þörfin breytist en reynt er að koma til móts við þarfir viðskiptavina eins og hægt er.
„Flestir viðskiptavinir fyrirtækisins eru einstaklingar en fyrirtæki hafa einnig uppgötvað þann sveigjanleika og þægindi sem fólgin eru í því að geta geymt lager eða bókhaldsgögn og önnur skjöl, sem sjaldan þarf að fletta upp í, hjá okkur. Þeir viðskiptavinir sem eru í skammtímaleigu eru flestir einstaklingar sem eru að losa húsnæði og þurfa að geyma búslóð tímabundið með hagkvæmum og þægilegum hætti. Viðskiptavinir okkar hafa aðgangskóða að húsinu og geta komist í geymslur sínar hvenær sem er sólarhrings sem er mikill kostur þar sem þarfir hvers og eins eru mismunandi,“ segir Sigurður.
„Geymslur til leigu“ bjóða upp á geymslur af mismunandi stærðum, þær minnstu eru 1,5 fermetrar og þær stærstu 10 fermetrar en sú stærð getur tekið við búslóð úr 4 herbergja íbúð. Lofthæðin í öllum geymslunum er um 2,7 metrar.
Leiga á geymslu kostar frá 7.490 krónum á mánuði en langtímaleiga getur verið mjög hagstæð því ef eitt ár er staðgreitt er veittur 20% afsláttur af verði.
Geymslurnar eru staðsettar að Smiðjuvegi 4, græn gata, og segir Sigurður þá staðsetningu vera hagstæða fyrir marga:
„Mörgum finnst gott að hafa sínar geymslur nálægt sér og Smiðjuvegurinn er nokkuð miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Meirihluti viðskiptavinanna eru líka búsettir í Kópavogi, austurbæ Reykjavíkur, Breiðholti eða Garðabæ, þó að vissulega sé hér líka fólk úr öðrum hverfum með geymslu í leigu, og jafnvel fólk af landsbyggðinni.“
Við víkjum aftur talinu að þeim þjóðfélagsbreytingum sem valda þessari auknu þörf fyrir geymslupláss utan heimilisins og Sigurður fer aðeins dýpra ofan í það viðfangsefni:
„Ein skýringin er sú að fólk er að verða sjálfstæðara, ekki eins háð ættingjum og ekki sjálfgefið að maður geti geymt búslóð eða hluta af eignum sínum í til dæmis foreldrahúsum. Enn fremur er meiri hraði og meiri hreyfing á þjóðfélaginu. Einnig ef fólk fer til dæmis í nám eða tímabundna vinnu erlendis þá þarf að koma búslóðinni fyrir. Meiri hreyfing á fólki skapar aukna þörf fyrir geymsluþjónustu.“
Nákvæmar upplýsingar um verð, leigutíma og stærðir er á finna á heimasíðu fyrirtækisins, geymslurtilleigu.is. Þar er einnig hægt að bóka geymslupláss. Einnig er gott að hafa samband í síma 414 3000 með fyrirspurnir.