fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

Borgin mín, Moskva: „Ekkert er fegurra en Moskva í maí“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 7. maí 2018 21:00

Frá Moskvu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafrún Ö.Þ. Stef­áns­dótt­ir, sendi­ráðsfull­trúi í ís­lenska sendi­ráðinu í Moskvu, kom fyrst til Rússlands fyrir 25 árum sem ferðalangur með nokkrum skólafélögum úr rússneskunámi í Háskóla Íslands. Ári síðar fór hún í sumarnám við Moskvuháskóla.

„Nokkrum árum seinna, eða 1998, flutti ég til Moskvu til að starfa við sendiráðið og var í fjögur ár og er nú í annað sinn hér að ljúka öðru árinu mínu í þetta skiptið,“ segir Hafrún sem deilir sínum uppáhaldsstöðum í Moskvu með lesendum DV.

Hafrúnu finnst Moskva hreint stórkostleg og er mikil Moskvumanneskja. „Moskva kemur þér endalaust á óvart og hefur alltaf eitthvað nýtt að bjóða. Fátt særir mig meira en þegar fólk sem hefur ferðast til Rússlands segir að Moskva hafi verið ágæt, en Pétursborg alveg æðisleg. Ég vona að sem flestir sem koma hingað til Moskvu sjái sjarmann sem heillar mig sífellt meira með hverju árinu. Moskva er græn og fögur, og einhver alfremsta menningarborg í heiminum. Allir þekkja Bolshoi, ballettinn og óperuhefðina, en einnig sirkus og leikhúslífið.

Auk klassískra listasafna eins og Tretjakovsgallerísins er nútímalist gert hátt undir höfði og þó nokkur söfn sem svo sannarlega er þess virði að heimsækja, sérstaklega MMOMA (Moscow Museum of Modern Art) og ГАРАЖ (Garage) sem er inni í gamla Gorky-garðinum, sem nú heitir Park kultury, eða menningargarðurinn. Almenningsgarðarnir eru margir og stórir, en einnig er gaman að rölta eftir breiðgötunum í miðborginni þar sem ýmislegt skemmtilegt ber fyrir augað.“


Hafrún reyndar à Volgubökkum, en í Rússlandi samt.

Moskva hefur ekki farið varhluta af kokteilmenningunni

Hafrún bjó fyrst á heimavist í Moskvuháskóla og svo aftur á sömu slóðum upp á Spörvahæðum. „Þaðan er frábært útsýni en umferðin varð sífellt þyngri og að lokum flutti ég niður í bæ. Nú bý ég á mínum draumaslóðum, í hjarta miðborgarinnar, rétt við Kreml, í göngufjarlægð við vinnuna og flesta áhugaverðustu staði miðborgarinnar. Að auki er ég í göngufæri við fimm neðanjarðarlestalínur svo mér eru allir vegir færir bókstaflega,“ segir Hafrún. Henni líður ákaflega vel í Moskvu og ræður vinnan mestu um það að hún er ekki komin heim ennþá og vonast hún til að vera þar sem lengst.


Sólarupprás út um glggann hennar Hrefnu.

Líkt og flestir á Hafrún sér sína uppáhalds veitingastaði, bæði hversdags og til hátíðabrigða. „Á venjulegum degi tylli ég mér á einhvern asískan eða evrópskan stað sem verður á vegi mínum. Það er allt fullt af kaffihúsum og veitingastöðum í miðborginni sem flestir eru hver öðrum betri,“ segir Hafrún og nefnir að í Moskvu er að finna veitingastaði á heimsmælikvarða.

„Svo sem the White Rabbit, en einnig the Mad Cook, Probka na Tsvetnom, Ugolyok og Severyane og margir fleiri. Þá er ekki hægt að sleppa því að kynna sér matarhefð Kákasusríkjanna, sérstaklega Georgíu og Patara. Við svonefndar Patríarkatjarnir (Patriarchye prudy) eru einstaklega skemmtilegir veitingastaðir með nútímalegri tökum á flestum sígildu georgísku réttunum.“

„Ég er núorðið lítið fyrir næturlífið, en kaffihúsin eru mörg, til dæmis Akademia á Bolshaya Nikitskaya eða Paul inni í bakgarði við Romanov pereulok. Þá er keðja af morgunverðarstöðum sem heita Breakfast, Forever friends, Conversation, Scramble, I love cake í kringum Tass-torgið við Nikitskye vorota sem eru allir skemmtilega svipaðir en þó hver með sínu lagi.

Svo hefur Moskva ekki farið varhluta af hvort heldur er kokteilmenningunni eða micro-bjórbrugghúsunum. Helstu bjórbarirnir fyrir þá sem vilja prófa sig áfram í sérbrugguðum mjöð eru Rule Taproom, Craft Republic og Erik rizhy (Eiríkur rauði).“


Óvenjuleg stytta af þjóðskáldinu mikla Alexander Púshkin sem heitir „skáldið í hvíld.“

Fer flestra sinna ferða fótgangandi

Hafrún notaði bíl áður til allra sinna ferða, en segir umferðina í borginni hafa þyngst mikið og í þetta skiptið skilji hún bílinn eftir heima. „Metro, neðanjarðarlestin í Moskvu, er mjög þægileg og kemur manni fljótt á milli staða. Ég er hins vegar svo vel staðsett að ég fer flestra minna leiða fótgangandi, en leigubílar eru líka ódýrir í Moskvu samanborið við Ísland og lítið mál að panta bíl í gegnum mismunandi smáforrit: Gett, Yandex og Uber til að nefna nokkur.“


Kristkirkja.

Vorin eru besti tíminn í Moskvu

Vorið er besti tíminn til að upplifa borgina að sögn Hafrúnar. „Fyrir mér er ekkert fegurra en Moskva í maí. Kannski stafar það að einhverju leyti af því að menn þyrstir í sól og útiveru eftir langa og stranga vetur, en borgin grænkar á undraskömmum tíma og kemur eitthvað svo hrein og fersk undan vetri.“

Hafrún nefnir nokkra staði og hluti sem eru ómissandi fyrir þá sem aldrei hafa heimsótt borgina. „Allir fara á Rauða torgið og ganga meðfram Kreml og svo að Kristskirkju. Þá er gaman að rölta þaðan yfir ána, koma við á eyjunni og kíkja á veitingastaðina og galleríin þar. Halda svo áfram í áttina að Park kúltúry (Gorky park), þá gengur fólk meðal annars fram hjá „hinum föllnu styttum“ en þangað var safnað öllum helstu sovétstyttunum sem lifðu fyrstu ár 10. áratugar síðustu aldar af. Í Park kúltúry er að finna auk tívolíleiktækjanna, grænar grundir, gosbrunna og kaffihús, en einnig eitt flottasta nýlistasafnið í borginni „Garage“ sem er alltaf með sýningar á heimsmælikvarða.

Niðri í bæ er hægt að rölta frá Kreml upp Tverskaju, aðalverslunargötuna í borginni, ganga eftir búlevörðunum og svo upp að fyrrnefndum Patríarkatjörnum (Patriarchye prudy) eða Tæru tjörnum (Chistye prudy). Á báðum þessum stöðum er að finna skemmtileg kaffihús og góða veitingastaði.

Þess utan er útsýnið ofan af Spörvahæðum (Vorobyovy gory sem áður voru nefndar Lenínhæðir) uppi hjá Moskvuháskóla óviðjafnanlegt og þaðan sést yfir alla borgina. Þar verður Fan Zone á HM2018 með beinum útsendingum af öllum leikjum, en gert er ráð fyrir að þar eigi allt að 40.000 manns að geta safnast saman og skemmt sér vel. Þar má búast við að mikill fjöldi Íslendinga geri sér glaðan dag þegar Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik liðsins á HM í knattspyrnu þann 16. júní næstkomandi.

Hafrún nefnir að lokum að ekki sé hægt að fjalla um Moskvu án þess að geta baðhúsanna. „Rússar fara í „bönju“ bæði fyrir sál og líkama. Auk þess að svitna hressilega í gufunni fríska menn sig í köldum laugum þess á milli, fá sér nudd, hand- og fótsnyrtingu, dreypa á te eða bjór og narta í létta rétti með.“


Úr Gorky park.


Smá sýnishorn af Lenín úr garði hinna föllnu stytta.


Valdimar Sveinungason eða Vladimir mikli ný stytta við Kreml.

Lestu einnig: Borgin mín: „Hjartað sló á Nørrebro“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er
Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.