Páll Magnússon gagnrýnir óeðlilegar launahækkanir
„Ítrekað sér fólk hluti sem sannfæra það um að það sé kannski bara öruggast að tortryggja allt,“ segir Páll Magnússon í viðtali við DV. Hann nefnir nokkur dæmi: „Stjórnendur í banka og fyrirtæki sem er að fara á markað, Síminn á sínum tíma, halda að það sé enn í lagi, eftir hrun, að handpikka vini sína sem fá að kaupa hlutabréf á lágu verði og gera þá ríkari áður en fyrirtækið fer á markað fyrir almenning. Fólk sér þetta og því blöskrar.“
Páll tekur fleiri dæmi: „Forystumenn í atvinnulífinu sitja á fundi í stjórn Samtaka atvinnulífsins, koma út af fundinum og segja grafalvarlegir að það sé ekki svigrúm til að hækka laun á Íslandi meira en tvö til þrjú prósent, annars fari allt til andskotans. Þetta sama fólk fer sama dag á stjórnarfund, til dæmis í Granda eða VÍS, og hækkar eigin laun um 30–40 prósent á einu bretti. Og þessir menn halda enn, eftir hrun, að þetta sé allt í lagi og að það gildi allt önnur lögmál um þá sjálfa en alla aðra.
Núna nýlega sjáum við dæmi um að Kjararáði finnst allt í lagi að hækka ráðuneytisstjóra um 30 prósent í launum meðan aðrir eiga að láta 3 prósentin duga.
Það er þessi hegðan í samfélaginu sem gerir að verkum að traustið er enn í núllpunkti. Fólk er alltaf að sjá dæmi um það aftur og aftur að það borgi sig bara að gera ráð fyrir því í upphafi að rangt sé haft við – og reikna með því þangað til annað kemur í ljós.“