KETO er í raun útgáfa af lágkolvetna mataræði en gengur enn lengra og eykur þannig enn frekar líkur á árangri. Markmið KETO er alveg á kristaltæru – Það er að léttast og stórbæta heilsuna. „Allt prógrammið er sett upp með þetta í huga og ég reyni að hafa þetta mjög einfalt og aðgengilegt. Bæði fróðleikshlutann en líka uppskriftahlutann og tekur 10–30 mínútur að útbúa hverja uppskrift (korter í flestum tilvikum) og alger lágmarksfjöldi hráefna,“ segir Gunnar.
Hér er ein uppskrift úr 21 dags áskoruninni, en allar frekar upplýsingar má fá á heimasíðunni: habs.is
Athugaðu að uppskriftin er nokkuð rífleg því ætlunin er að nota afgangana sem hluta af uppskrift fyrir næsta dag.
Ætlað fyrir 2
Eldunartími: 20 mínútur
8 grömm af kolvetnum í einum skammti
Hitaðu ofninn í 180 gráður á blæstri.
Innihald:
400 g úrbeinuð læri
kjúklingakrydd að eigin vali
600 g kúrbítur, skorinn í spagettí strimla
1 msk. smjör
salt og pipar
1 krukka grillaðar paprikur í krukku ( Jamie’s eru frábærar, fást í Krónunni)
1 peli rjómi
Salt
Aðferð:
1. Byrjaðu á að steikja kjúklinginn á pönnu í klípu af smjöri eða olíu og kryddi þar til hann hefur brúnast vel. Skelltu honum í eldfast mót og í 10 mínútur inn í ofninn og kláraðu restina af réttinum á meðan. (Athugaðu að þú þarft að geyma um 1/3 af kjúklingnum fyrir morgundaginn).
2. Veiddu paprikuna úr krukkunni og settu hana í matvinnsluvél eða blandara í 10 sekúndur. Settu maukið á vel heita pönnu, bættu rjómanum við og láttu sósuna malla þangað til kjúklingurinn er tilbúinn. Smakkaðu til með salti.
3. Skerðu kúrbítinn niður með járninu, þerraðu með eldhúspappír og steiktu hann síðan eldsnöggt á pönnu í 1 mínútu í olíu eða smá smjöri þegar þegar kjúklingurinn er tilbúinn. (Athugaðu að þú þarft að geyma um 1/3 af kúrbítnum fyrir morgundaginn)
4. Hafðu kúrbítinn neðst, kjúklinginn þar ofan á og sósan toppar svo.