Orðið á götunni er að allnokkur spenna sé fyrir komu Costco til Íslands. Og ekki að ástæðulausu, þetta er risavaxið fyrirtæki sem væntanlega mun veita þeim sem fyrir eru á íslenskum smásölumarkaði verðuga samkeppni.
Kaupmenn bera sig mannalega og segjast fagna samkeppni! En svo virðist sem talsmenn og hagsmunagæsluaðilar verslunarinnar hafi ekki setið auðum höndum. Spjótin hafa beinst að uppboði á innflutningskvótum. Sjálfsagt eru þær margar „lausnirnar“ sem kaupmenn hafa hvíslað í eyra nýs ráðherra málaflokksins.
Orðið á götunni er að ein þeirra, sem er rædd á göngum ráðuneytisins veki sérstaka athygli. Og mun vera ættuð úr smiðju Samtaka verslunar og þjónustu. Hún er sú, að þegar kemur að því að útdeila innflutningskvótum fyrir matvæli, sé best að láta þá hafa stærstan hluta, sem mesta reynsluna hafa fyrir á íslenskum markaði!
Þannig að sá sem hefur flutt inn mest á undanförnum árum, fær mest af kvótanum, og svo koll af kolli. Þá komum við aftur að Costco, sem hefur ekkert flutt inn til Íslands á undanförnum árum og fengi því lítið í sinn hlut. Þetta yrði kvótasetning sem bragð væri að.
Fram til þessa hafa innflutningskvótar verið boðnir upp og sá sem best hefur boðið, hefur fengið að flytja inn það sem hann vill, og það sem eftir stendur fær svo sá sem næst hæst bauð og svo áfram þar til kvótinn er uppurinn. Með þessu hefur ríkissjóður aflað sér nokkurra tekna sem runnið hafa í samneysluna. Og það sem meira er, þetta er alþjóðlega viðurkennd aðferðafræði við útdeilingu gæða sem ríkið heldur á.
En nú hefur sem sagt nýjum ráðherra látið sér detta í hug að útdeila þessum gæðum til vildarvina, og sá fær mest gefins sem flutt hefur mest inn á undanförnum árum.
Hver skyldi það vera? Orðið er laust!