Orðið á götunni er að frambjóðendur Bjartrar framtíðar séu þegar byrjaðir að uppfæra ferilskrána fyrir komandi afhroð á laugardaginn. Flokkurinn mælist varla með fylgi og í nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar mældist flokkurinn með fordæmalaust 0,0% fylgi í einu kjördæmi. Þó að könnunin sé ekki fullkomlega marktæk þá eru skilaboðin frá kjósendum alveg skýr.
Það er áhugavert að skoða feril Bjartrar framtíðar síðastliðna 12 mánuði, flokkurinn náði inn á þing í síðustu kosningum með því að hjóla í búvörusamninginn og sameinaðist nánast Viðreisn í stjórnarsamsstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Í ríkisstjórn týndust þingmenn flokksins í ráðuneytunum á meðan grasrótin hélt heim í sína gömlu flokka. Hrokafull viðbrögð ráðherra flokksins í kjólamálinu alræmda, sem var klæðskerasniðið að Áramótaskaupinu, komu síðan í veg fyrir að Björt framtíð gæti talist trúverðugur flokkur þegar kemur að siðbótum ráðamanna. Flokkurinn reyndi vissulega að endurheimta trúverðugleikann í augum stuðningsmanna sinna með því að slíta stjórnarsamstarfinu en það var einfaldlega of seint, grasrótin og stuðningsfólk Besta flokksins var þegar farið annað. Meira að segja Jón Gnarr sjálfur.
Þó að Björt framtíð hverfi af þingi á laugardaginn þá verður flokkurinn áfram til, a.m.k. fram á næsta vor. Flokkurinn er hluti af meirihluta bæjarstjórna og í borgarstjórn Reykjavíkur. Í viðtali í þættinum Harmageddon ræddi Óttar Proppé formaður Bjartrar framtíðar um stjórnmálin, vakti athygli margra hlustenda þegar hann var spurður um sveitarstjórnarmálin og Óttarr gat hreinlega ekki hamið sig í að ræða málefni Reykjavíkurborgar. Óttarr var hluti af hallarbyltingu Besta flokksins í ráðhúsinu á sínum tíma og þekkir vel til málefna borgarinnar. Ef Óttarr dettur af þingi á laugardaginn og situr í starfsstjórn fram á næsta ár á meðan greitt er úr yfirvofandi stjórnarkreppu, hver veit nema hann freisti þess þá að fara bara aftur í borgina.