fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024

Innfædd: Flóttaleið-sýndarveruleiki-Bryndís Schram skrifar

Ritstjórn DV
Laugardaginn 21. apríl 2018 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bryndís Schram skrifar um Innfædd eftir Glenn Waldron sem frumsýnt var í Iðnó þann 9. apríl síðastliðinn.

Höfundur: Glenn Waldron
Þýðing: Hrafnhildur Hafberg
Leikstjóri: Brynhildur Karlsdóttir
Lýsing: Aron Martin Ágústsson
Leikarar:  Urður Bergsdóttir, Ísak Emanúel Róbertsson og Davíð Þór Katrínarson
Lesari: Karl Ágúst Úlfsson

Um daginn var mér alveg óvænt boðið á sýningu í Iðnó, einu höfuðdjásni gömlu Reykjavíkur, byggðu árið 1896 í nýklassiskum stíl –  og friðað fyrir löngu. Þetta sviphreina hús var á sínum tíma Mekka leiklistar á Íslandi og hefur svo lengi, sem ég man, verið iðandi af lífi, gestrisni og spennandi gjörningum.

„En nú er hún Snorrabúð stekkur,“ sagði skáldið Jónas. Það er af sem áður var. Og þar sem ég geng inn um gamalkunnar dyr, lýstur þeirri hugsun niður í kollinn á mér, að  líklega sé Iðnó í einhvers konar tómarúmi um þessar mundir, hafi glatað tilgangi sínum, og að framtíðin sé fullkomlega óráðin. Þess vegna allt þetta rú og stú – allt þetta miskunnarlausa stílbrot og virðingarleysi fyrir sköpunarverki forfeðranna.

Strax í anddyrinu gengur maður á vegg og fær smásjokk  – risastórt barborð með groddalegu skyndigróðayfirbragði sprengir í loft upp hina ljúfu 19. aldar stemningu. Það yfirtekur anddyrið  eins og heimaríkur hundur,  sem enginn þorir að ganga framhjá án þess að biðja um bjór á uppsprengdu verði.

Inni í salnum tekur ekki betra við. Bekkirnir eru allir horfnir, og nokkrir stólar komnir í staðinn – ekki gert ráð fyrir mörgum áhorfendum. Allt kvöldið heyrðist eitthvert sífrandi suð í ljóskösturum, sem vöktu upp óþægilegar minningar um áhugamannaleiksýningar fyrir vestan á hinni öldinni.

Hins vegar verð ég að segja, að gjörningarnir sem fylgdu í kjölfar vonbrigða minna með örlög gamla leikhússins, voru því óvæntari og ánægjulegri, eftir því sem leið á kvöldið –  og þegar upp var staðið í lok sýningar, héldu umræðurnar áfram, og komust færri að en vildu. Þannig á leikhús að vera , vekja umræður, vekja vitundina.

Sumum liggur svo mikið á hjarta, að þeir eru reiðubúnir að fórna öllu til þess að ná til fólks – hafa áhrif, breyta heiminum. Ræðupúltið nægir sumum, aðrir skrifa sögur og enn aðrir semja leikrit. Sannleikurinn er sumum erfiður, öðrum finnst það skylda sín að segja sannleikann – þótt hann kunni að vera sár. Upp í huga mér koma strax þrjú nöfn, sem hafa að undanförnu verið að tala miskunnarlaust yfir hausamótunum á okkur: Eiríkur Örn Norðdahl (Hans Blær í Tjarnarbíói), Duncan MacMillan (Fólk, hlutir og staðir í Borgarleikhúsinu) og nú Glenn Waldron í Iðnó.

Waldron er fyrrverandi blaðamaður við Guardian, sem fjallaði meðal annars árum saman um tísku, en fékk smám saman leið á því og sneri sér alfarið að því að skrifa leikrit –af því honum lá  svo margt á hjarta, eins og hann segir sjálfur.  Hann nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir, og hafa verk hans verið sett upp víðsvegar um Evrópu.

Leikritið „Innfædd“, sem nú er sýnt í Iðnó, er óvenjulegt að því leyti, að leikendur tala allan tímann út í salinn – eða á ég að segja út í bláinn. Þau tala til okkar, án þess að skynja nærveru okkar –  eru á eintali, ein með hugsunum sínum. Greina frá upplifun sinni í daglegu lífi. Þau þekkjast ekki, búa sitt í hvorum heimshlutanum og hafa ólíkan bakgrunn.

En mannskepnan er sjálfri sér lík, hvort sem það er í Súdan eða Súðavík – hvort sem það er á stríðshrjáðu svæði í Mið-Austurlöndum, eða í ónefndri borg í Bretlandi – ég tala nú ekki um á eyju í Indlandshafi.

Og eins og fjórtán ára börnum er eðlislægt, hvar sem þau eru stödd í heiminum, þá tala þau af einlægni og kunna ekki að fela. Tala og tala hindrunarlaust, og að lokum vitum við allt um þau – um samband þeirra við föður og móður – eða sambandsleysi –  hvaða stétt þau tilheyra, hvers konar framtíð bíður þeirra, hvað er þeim efst í huga – og hvað er það sem þau þrá? Þetta er svolítið eins og að standa á hleri, og því meira sem þau segja okkur af sjálfum sér, því betur skynjum við litlu manneskjuna að baki frásögninni.

Skynjum barnið , sem stendur á tímamótum, einmana, óttaslegið, kvíðið, upplifir höfnun og er með brotið sjálfstraust. Hvert orð er eins og ákall um hjálp – handleiðslu, alúð. Hvar eru leiðbeinendurnir? „Hvar eru þeir fullorðnu?“

Ríka fjórtán ára stelpan á eyju í Indlandshafi er gersamlega háð hinni ímynduðu hamingju netheimanna og brotnar saman, ef hún fær ekki „læk“ og „hjarta“ við hverja færslu. Strákurinn í stríðshrjáða landinu reynir að sigrast á einmanaleik sínum með því að hakka hellisvofurnar í spað í tölvuleikjunum. Og verkamannssonurinn í enska slömminu laumast til þess í jarðarför bróður síns að glápa á klámmynd undir kirkjubekknum.

Á milli þessara þriggja eru engin tengsl.

En eftir því sem á leikinn líður, er eins og þeim vaxi ásmegin. Þau láta til skarar skríða, fara að hugsa og álykta. Hún sker  utan af sér merkjavörurnar, verkamannssonurinn beitir elskuna sína ofbeldi, og strákurinn í stríðshrjáða landinu sættir sig ekki lengur við tilbúinn veruleika tölvuleikjanna.  „Heimurinn er ekki svona“,segir hann á einum stað. Og þau hætta að vera hrædd. Þau ætla að grípa til sinna eigin ráða.

Og til hvaða ráða grípa þau? Hvernig? Tækin eru ekkert framandi eða fjarlæg. Þau eru hérna, innan seilingar, í lófanum á þér. Snjallsíminn opnar þér leið inn í nýjan heim – hann leggur heiminn að fótum þeim. Ímyndarveruleikinn er hinn eini sanni veruleiki nútímans.

Þau byrja að mynda atburðarásina. Mynda sitt eigið sjálf, og hvernig þau bregðast við áreiti heimsins. Þau eru ekki lengur þiggjendur eða þolendur. Þau eru orðin gerendur. Á því augnabliki myndast – alveg óafvitandi – tengsl. Myndskeiðin ferðast um heiminn, renna hlið við hlið inn á Facebook,  Twitter – eða hvað þetta nú heitir allt saman. Vekja athygli, umræður, kannski andúð, hneykslun – alla vega viðbrögð. Ætla þau að breyta heiminum?

Þetta er svona leikrit, sem á erindi í alla skóla, þar sem ungt fólk er saman komið . Það myndu vakna spurningar, umræðan færi af stað. Og umræðu er greinilega þörf.

Þýðing Hrafnhildar Hafberg er létt og lipur,  bæði þægileg og trúverðug áheyrnar,  mjög í anda fjórtán ára. Leikmynd og lýsing er ekkert til að státa af, enda er þetta verk augljóslega fært upp með það í huga að ferðast milli staða og ná til sem flestra með sem minnstum tilkostnaði.

En leikendur eru fjári góðir, svo ekki sé meira sagt. Þó þeir séu allir komnir yfir tvítugt, reynist þeim auðvelt að setja sig í spor fjórtán ára unglinga – bæði í hreyfingum og talsmáta.   Auk þess eru þau kattlipur og falleg á að horfa.  Það verður gaman að fylgjast með þeim Urði, Ísak Emanúel og Davíð Þór í framtíðinni.

Að lokum langar mig til að hrósa  leikstjóranum unga, Brynhildi Karlsdóttur.  Það þarf töluvert hugmyndaflug  til að geta blásið lífi í langar einræður. Hún er greinilega að læra eitthvað skemmtilegt í Listaháskólanum. Ég vona, að þessi sýning blási lífið umræðuna, sem er svo þörf einmitt um þessar mundir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Leita að tveimur Albönum sem grunaðir eru um fíkniefnasölu á Akureyri – Annar dvaldi á Íslandi í leyfisleysi í rúm tvö ár

Leita að tveimur Albönum sem grunaðir eru um fíkniefnasölu á Akureyri – Annar dvaldi á Íslandi í leyfisleysi í rúm tvö ár
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Fyrrum undrabarnið hætti í atvinnumennsku til að vinna fyrir pósthúsið – ,,Það er lúxuslífið“

Fyrrum undrabarnið hætti í atvinnumennsku til að vinna fyrir pósthúsið – ,,Það er lúxuslífið“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sturlun í Filippseyjum – Varaforsetinn hótar að láta myrða forsetann ef hann gerir henni mein

Sturlun í Filippseyjum – Varaforsetinn hótar að láta myrða forsetann ef hann gerir henni mein
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Ritdómur: Óljós eftir Geir Sigurðsson

Ritdómur: Óljós eftir Geir Sigurðsson
Eyjan
Fyrir 14 klukkutímum

Evrópumálin: Gangi Noregur inn í ESB verður Ísland líka að ganga inn – hinn kosturinn er efnahagsleg hnignun

Evrópumálin: Gangi Noregur inn í ESB verður Ísland líka að ganga inn – hinn kosturinn er efnahagsleg hnignun
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Cooper rekinn frá Leicester

Cooper rekinn frá Leicester
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Byrjunarlið Manchester United í fyrsta leik Amorim – Hojlund og Mainoo á bekknum

Byrjunarlið Manchester United í fyrsta leik Amorim – Hojlund og Mainoo á bekknum
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Var um kyrrt þrátt fyrir árás Putin á Úkraínu – ,,Ég ætla ekki að forða mér burt“

Var um kyrrt þrátt fyrir árás Putin á Úkraínu – ,,Ég ætla ekki að forða mér burt“