Orðið á götunni er að leiðtogafundur Norðurlanda og Indlands í Svíþjóð, sem Katrín Jakobsdóttir sótti fyrir Íslands hönd, hafi reynst forsætisráðherra vor óþægilegur ljár í þúfu. Ekki nóg með að Katrín hafi þurft að ferðast í almennu farrými á leiðinni til Stokkhólms, heldur reyndist óvæntur leynigestur um borð, sjálfur Sogns-strokufanginn Sindri Þór Stefánsson. Engum sögum fer þó af samskiptum þeirra um borð, eða hvort þau voru nokkur yfir höfuð.
Eftir leiðtogafundinn sagði Katrín að Norðurlöndin ættu mikil tækifæri í aukinni samvinnu við Indland, ekki síst á sviði nýsköpunar og umhverfismála. Þá tók Katrín fram að ánægjulegt hefði verið að rík áhersla hefði verið lögð á jafnréttismál á fundinum.
Athygli vekur að Katrín og ráðuneyti hennar hefur hvergi minnst á helstu ástæðu þess að forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, sótti þennan leiðtogafund Norðurlandanna, en það er fyrirhuguð sala Svíþjóðar á 110 herþotum til Indlands fyrir 15-25 milljarða dollara, en tvíhliða yfirlýsing þess efnis var einmitt undirrituð á leiðtogafundinum.
Eflaust hefur Katrínu þótt erfitt að vera einn af miðdeplum athyglinnar í miðri hergagnasölu, enda stríðir slíkt gegn stefnu VG og siðferðisvitund flestra landsmanna, þar sem Ísland hefur fengið góðan díl á vörnum landsins í gegnum tíðina og því ekki þurft að standa í slíkum viðskiptum, ef frá eru taldar fallbyssurnar á skipum landhelgisgæslunnar.
Orðið á götunni er hinsvegar það, að Katrín sé í góðri æfingu við að víkja sér undan grunnstefnumálum síns flokks þegar kemur að öryggismálum, eftir hentugleika, og því muni þetta lítil áhrif hafa.