Brexit er í algjöru uppnámi og Theresa May veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga. Hörðustu andstæðingar Evrópusambandsins í Íhaldsflokknum bíða eftir því að reka rýtinginn í bak hennar og er jafnvel talað um erkiíhaldsmanninn Jacob Rees-Mogg sem forsætisráðherraefni. En víst er að slíkt gæti leitt til mikils ófriðar. Hugsanlega er May það skásta sem er í boði ef allt á ekki að fara í bál og brand.
Svo eru hlutirnir komnir á hvolf að Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, lýsir því yfir seint og um síðir að hann vilji að Bretland verði áfram í tollabandalagi með ESB og uppsker mikið hrós frá frammámönnum í viðskiptalífinu sem seint verða taldir í aðdáendahópi hans.
Í Economist birtist forystugrein þar sem segir að lausnin sé fólgin í því að Bretland fari norsku leiðina í samskiptum við ESB. Hér á Íslandi er þetta kallað EES-samningurinn, en Ísland sem er aðili að honum er ekki nefnt í greininni. Economist segir að í þessu myndi felast málamiðlun sem annars sé ekki í sjónmáli, pólitísk útganga úr ESB án þess að slíta efnahagstengslin.