Í Kiljunni annað kvöld sýnum við innslag sem ég er svolítið ánægður með – undir liðnum Bækur og staðir. Við fórum vestur á Snæfellsnes, innst á nesið, þetta er handan við Eldborg, við Löngufjörur. Þarna bjó á bæ sem kallast Stóra-Hraun séra Árni Þórarinsson. Það var sá mikli sögumaður sem sat lengi á tali við Þórberg Þórðarsson, en Þórbergur skrásetti af mikilli smásmygli úr varð Ævisaga Árna Þórarinssonar í mörgum bindum – það frægasta kallast Hjá vondu fólki.
Við segjum frá Árna, sem gekk í Lærða skólann, var þingsveinn á tíma Jóns Sigurðssonar, þótti góður í klassískum málum, en varð prestur í sveit og afar sérvitur. Um samstarf hans og Þórbergs var sagt að þar hefði hraðlygnasti maður landsins hitt þann trúgjarnasta.
Og svo er það Ásta. Hún uppfóstraðist á Litla-Hrauni, litlum bæ sem stendur eilítið austar en hús séra Árna. Ásta bjó þarna þar til hún var unglingur en húsið stendur enn. Það er farið í eyði – en innanstokks er nánast eins og fólkið hafi kvatt í skyndi. Þetta er magnaður staður, fáfarinn, og þarna er mikil náttúrufegurð. Sögur eru af því að Ásta hafi hlaupið berfætt um tún og móa og í textum eftir hana má finna einstakt næmi fyrir náttúrunni og frábæran orðaforða tengdan henni. Hún hefur semsagt fleiri hliðar en hið háskalega borgarkvendi – og í raun má greina að hún hefði getað skapað býsna víðfemt höfundarverk ef henni hefði enst aldur til.
Horft yfir Litla-Hraun, æskuheimili Ástu Sigurðardóttur, í átt að Snæfellsjökli. Hún skrifaði sérlega glæsilega lýsingu á jöklinum og viðhorfi fólks í sveitinni til hans.