fbpx
Þriðjudagur 25.febrúar 2025
Eyjan

Múr mannfyrirlitningar eða andfasískur varnargarður

Egill Helgason
Þriðjudaginn 6. febrúar 2018 18:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú hafa menn reiknað út að Berlínarmúrinn hefur verið lengur fallinn en hann stóð. Múrinn var reistur 1961 og entist í 28 ár, tvo mánuði og 27 daga. En nú er semsagt lengra liðið frá því að menn hófu að brjóta hann niður – þennan múr mannfyrirlitningar eins og hann var kallaður. Austur-þýska ríkisstjórnin kallaði hann hins vegar andfasíska varnargarðinn – sem hefði þann tilgang að varna fasismanum inngöngu í alþýðulýðveldið. En auðvitað var Múrinn byggður til að passa upp á að fólkið kæmist ekki út úr sæluríki kommúnismans.

Múrinn var lifandi veruleiki fyrir mína kynslóð, og kannski helsta tákn þess heims sem við ólumst upp í. Ég man greinilega eftir því þegar ég stóð fyrsta skipti vestanmegin og horfði á hann. Svo fór ég nokkrum sinnum yfir. Einu sinni með hópferð í rútu, tvívegis í lest. Það var eins og að koma til annarrar plánetu. Það var ekki bara gráminn og púkalegu fötin, heldur hvað allt gekk miklu hægar fyrir sig austanmegin. Stundum hitti maður fólk sem vildi ræða ástandið, það fór jafnvel að trúa manni fyrir hinu og þessu, en þá þurfti maður líka að vera á varðbergi – það gat verið útsendarar öryggislögreglunnar. Í Austur-Þýskalandi voru allir að klaga alla.

Ég ferðaðist austantjalds 1989, árið sem Múrinn féll. Maður fann að fólkið var orðið lausmálla. Pólland var reyndar alltaf sér á báti – þar ríkti ekki jafnmikill ótti við ríkið og maður skynjaði í Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskalandi. Þar var auðveldara að tala við fólk. En þetta sumar, síðasta sumar Múrsins, gat maður samt ekki ímyndað sér að hann myndi falla svo skjótt – vera feykt burt eins og hann væri gerður úr pappír.

Ég man að á þessum tíma var ég að lesa bók sem hét Der Mauerspringer eftir Peter Schneider. Hún kom út á níunda áratugnum og í henni eru raktar alls kyns sögur og sögusagnir um Múrinn og um fólk sem reyndi að komast yfir hann, heppnaðist hjá sumum en ekki öðrum. Þarna var til dæmis saga af unglingum sem fundu glufu og skruppu nokkrum sinnum yfir til Vestur-Berlínar til að spóka sig. Komu alltaf aftur.

Í Grikklandi sit ég stundum með góðum vini mínum, Mika, sem fæddist í Austur-Þýskalandi. Við erum næstum alveg jafngamlir. Ég spegla mig stundum í örlögum hans; hver hefði ég verið ef ég hefði fæðst fyrir austan járntjaldið? Mika komst upp á kant við kerfið. Hann varð utanveltu í samfélaginu. 1985 sótti hann um að fá að flytja vestur. Hofurnar á því þóttu ekkert sérstaklega góðar, en einn daginn var honum sagt að mæta um kvöldið í varðstöð við Múrinn. Hann fékk að taka með sér eitthvað smáræði af dóti og svo var honum sagt að ganga yfir í vestrið. Stóð þar, nokkurn veginn allslaus, og nóttin að færast yfir.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Gurrý flytur sig um set
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir: Krónan kostar íslensk heimili 250 þúsund krónur á mánuði – heildarkostnaður 500 milljarðar á ári

Sigmundur Ernir: Krónan kostar íslensk heimili 250 þúsund krónur á mánuði – heildarkostnaður 500 milljarðar á ári
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áslaug Arna: Stjórnkerfið svifaseint, snýst um sjálft sig og vinnur gegn kjörnum fulltrúum fólksins

Áslaug Arna: Stjórnkerfið svifaseint, snýst um sjálft sig og vinnur gegn kjörnum fulltrúum fólksins