fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Eyjan

Sjálfakandi bílar leysa ekki umferðarvandann né gera almenningssamgöngur óþarfar

Egill Helgason
Þriðjudaginn 30. janúar 2018 23:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfakandi bílar gætu þýtt umferðaröngþveiti. Þetta er fyrirsögnin á grein sem birtist nýlega í The Economist. Í greininni segir að slík tæki muni hvorki forða okkur frá umferðarteppum né gríðarlegum fjárfestingum í umferðarmannvirkjum. Það sé heillavænlegra fyrir borgir og ríki að halda samgöngukerfum sínum í lagi og er þar nefnt jarðlestakerfið í New York. Það er nú verulega farið að láta á sjá og er talið að endurbætur gætu kostað allt að 100 milljarða dollara. Tafir í umferð séu mikið vandamál í Bandaríkjunum og kostnaðurinn af þeim gríðarlegur.

Í greininni segir að það sé svo merkilegt við vísindaskáldskap að þegar hann birtir stórborgir framtíðarinnar sé nánast aldrei umferðaröngþveiti. Höfundar séu vissir um að það vandamál verði leyst. En sagan bendir til annars. Framfarir í samgöngum, frá járnbrautum til bíla hafa knúið áfram hagvöxt og umbylt borgum. En alltaf hafa fylgt umferðarteppur. Verður það öðruvísi nú þegar bílaframleiðendur og hátæknifyrirtæki boða sjálfakandi bifreiðar? Því miður er ólíklegt að gervigreind takist betur til en járnbrautarteinum og sprengihreyflum, segir The Economist.

Tafir í umferð eru gríðarlegt vandamál í Bandaríkjunum, segir í greininni. Kostnaðurinn sé mjög mikill og hann muni hækka enn nema fjárfest sé meira í samgöngukerfunum sem fyrir eru. Í samanburði við það líta sjálfakandi bílar vel út. Það er þekkt hvernig ný tækni í samgöngum breytir borgum.Þegar jarðarlestakerfið á Manhattan fór að þenjast norður gat fólk farið að flytja þangað til að komast úr þrengslunum á suðurhluta eyjarinnar. Mannfjöldinn í New York óx enn. Lagning vega á eftirstríðsárunum hafði í för með sér mannfjölgunarsprengju í úthverfum. Þetta leiddi smátt og smátt til mikilla umferðarþrengsla sem ollu því að óhagkvæmara varð að búa í úthverfum. Það varð erfiðara og dýrara að komast þaðan.

Í grein sem birtist 2011 settu tveir skipulagsfræðingar, Gilles Duranton og Matthew Turner fram „gundvallarkenningu um umferðarteppur“. Hún felur í sér að bygging nýrra stofnbrauta komi ekki í veg fyrir umferðartafir. Þvert á móti veldur hún því að fólki sem býr við vegina fjölgar, leiðir til þess að íbúarnir aka meira og eykur starfsemi sem útheimtir miklar ferðir til og frá. Og áður en langt er um liðið eru vegirnir jafn tepptir og fyrr.

Fljótt á litið ættu sjálfakandi bílar að minnka umferð. Það ættu að verða færri bílslys sem tefja umferðina. Bílarnir gætu ekið þéttar en áður. En á móti gæti þetta leitt til þess að svæði sem útheimta akstur verði meira aðlaðandi til búsetu. Fólki þar myndi fjölga. Kílómetrafjöldinn sem hver einstaklingur fer á bíl gæti aukist, það er hægt að nota tímann í bílnum til að vinna og sofa. Og líkt og nýir vegir leiða af sér aukningu á ferðum, væri hægt að nota sjálfakandi bílana í hluti sem áður hefðu talist óþarfir . Það er hægt að senda sjálfakandi bíl eftir kaffibolla, svo dæmi sé tekið. Við gætum verið öruggari í sjálfakandi bílum, framleiðni okkar gæti aukist, en það er ekki þar með sagt að við munum verja minni tíma í umferðinni.

Vegatollar eru í raun besta ráðið til að draga úr bílaumferð og með sjálfakandi bílum gæti verið auðveldara að leggja þá á. Pólitískt eru vegatollar alltaf umdeildir. Umferðarteppur verða vegna þess að takmörkuð gæði, vegirnir, eru í raun undirverðlagðir. Vegirnir hafa þannig ekki undan fjöldanum sem ekur. Með vegatollum er hægt að koma því til leiðar að þeir ferðist sem tilbúnir eru að borga fyrir það. Þótt það heyrist ekki oft í umræðunni eru vegir fjarska dýrir, þar er ekki bara átt við lagningu þeirra og viðhald, heldur líka allt plássið sem umferðarmannvirki taka.

Vegatollum er beitt víða, til dæmis í London og Singapore, segir í greininni, en þeir eru aldrei vinsælir. Bílstjórum er illa við að borga fyrir gæði sem þeir fengu áður fyrir ekki neitt. Aðrir hafa horn í síðu eftirlitsbúnaðar sem er settur í bíla til að innheimta gjöldin. En þegar fólki er ekið um er það ekki mótfallið því að borga.  Það greiðir fyrir leigubíla og Uber og Lyft. Sjálfakandi bílar sem nú er verið að prófa byggja á þessu fyrikomulagi. Í heimi þar sem fólk kaupir sér ekki bíla, heldur far með bílum, er líklegt að ónauðsynlegum ferðum fækki, það verður auðveldara að fá fólk til að greiða fyrir afnotin af vegunum, og þar með minnka umferðarteppurnar.

En þetta gæti leitt til annars konar vandræðaástands – sem er ekki án fordæma – og það tengist misjöfnum tekjum, já, má nota orðið stéttaskiptingu? Hraðar og góðar samgöngur eru einungis á færi þeirra sem geta borgað. En uppbygging borga gerir ráð fyrir greiðum og almennum aðgangi að helstu atvinnusvæðum – þungapunktum hagkerfisins. The Economist segir að sagan eigi svar við þessu: Almenningssamgöngur. Leigubílaþjónustur gætu boðið upp á bifreiðar sem taka fjölda farþega þannig að kostnaðinum er skipt í marga hluta. Það væri jafnvel hægt að kalla það strætisvagna! En svo er spurning hversu viljugt fólk yrði til að deila þeim. The Economist ráðleggur yfirvöldum, ríki og borgum, að halda halda þeim samgöngukerfum sem fyrir eru í góðu standi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur