Það vekur athygli í svokölluðu flokksvali Samfylkingar fyrir borgarstjórnarkosningarnar að þar má sjá endurkomu Guðrúnar Ögmundsdóttur í stjórnmálin. Sjálf segist hún vilja vera í baráttusætinu á listanum.
Guðrún er afar sjóuð í pólitík. Hún settist fyrst í borgarstjórn sem varaborgarfulltrúi Kvennalistans árið 1990 en svo var hún borgarfulltrúi 1992 til 1998. Frá 1999 til 2007 var hún þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðrún er vinsæl og vinmörg – og nýtur virðingar jafnt pólitískra samherja og andstæðinga.
Annars sýnist manni að baráttan gæti orðið nokkuð hörð í flokksvalinu sem fer fram 2. febrúar. Dagur B. Eggertsson þarf ekki að óttast um sæti sitt, en það er nokkuð hart sótt að Hjálmari Sveinssyni sem var í þriðja sæti í síðustu kosningum og sækist eftir því aftur.
Raunar er það svo að með fjölgun borgarfulltrúa ætti Samfylkingin að geta haldið óbreyttri tölu borgarfulltrúa eða jafnvel bætt við sig, þótt flokkurinn kunni að tapa í prósentvís. Hjálmar er umdeildur maður, það vantar ekki, en það má kannski telja honum til tekna að hann hefur verið óhræddur við að taka slagina.