Jules Dassin var ekki Frakki þótt nafnið bendi til þess. Hann var Bandaríkjamaður, af gyðingaættum frá Póllandi og Úkraínu. Pabbi hans var rakari. Dassin var fæddur 1911 og fór ungur að starfa í leikhúsi þar sem var leikið á jiddísku. Síðan lá leiðin í kvikmyndirnar. Dassin varð frægur fyrir raunsæislegar og harðsoðnar glæpamyndir – þeirra frægust er The Naked City frá 1948. Hún gerist í New York og sýnir vel bakhliðina á borginni.
Dassin gekk í flokk kommúnista á kreppuárunum en hvarf svo úr hreyfingunni við griðasáttmála Stalíns og Hitlers. En í Bandaríkjunum taldist þetta vera blettur á ferli hans. Hann lenti á svarta listanum við upphaf kalda stríðsins, flutti svo til Evrópu og bjó þar upp frá því. Það var í París að Dassin gerði áhrifamestu mynd sína. Rififi kallast hún, þetta er í raun fyrirmynd allra svokallaðra heist mynda sem á eftir koma, fjallar um hóp manna sem rænir skartgripaverslun. En svo fer lítið atriði úrskeiðis og eftirmálar ránsins reynast aðrir en ætlað var – það endar með ósköpum.
Myndina horfði ég á í bandarískri efnisveitu sem nefnist Filmstruck. Þar er að finna mikið úrval klassískra kvikmynda, meðal annars úr hinu rómaða Criterion-safni. Þetta er eiginlega nauðsynlegt mótvægi við hið takmarkaða úrval sem er á Netflix – þar er eins og kvikmyndirnar eigi sér enga sögu.
Rififi gerist á fáum dögum í París. Árið er 1955, borgin er niðurníddari og grárri en hún er nú og það er færra fólk. Samt er mikil fegurð í því hvernig Dassin kvikmyndar borgina – hann er í rauninni á undan nýbylgjunni í því hvernig hann notar raunverulega staði víðs vegar borgina. Hápunktur myndarinnar er sjálft ránið, það er næstum hálftími þar sem bófarnir eru að brjótast inn í skartgripaverslunina, það er ekki sagt orð, það er engin tónlist, en með nákvæmni sinni tekst Dassin að byggja upp magnaða spennu. Þetta var ekki dýr mynd í framleiðslu, leikararnir voru flestir lítt þekktir, sjálfur setti Dassin á sig yfirvaraskegg og lék ítalskan sérfræðing í að brjóta upp peningaskápa. Sums staðar var myndin bönnuð á þeim forsendum að þarna væri kennslustund í innbrotum.
Þetta er snilldarmynd. Truffaut sagði: „Úr einni lélegustu glæpasögu sem ég hef lesið, hefur Jules Dassin gert bestu glæpamynd sem ég hef séð.“ Hún hafði gríðarleg áhrif – þau má til dæmis greina í Reservoir Dogs eftir Tarantino.
Dassin kvæntist síðar grísku leik- og söngkonunni Melinu Mercouri. Frægasta myndin sem hann gerði með henni er Topkapi sem fjallar um demantarán í höll soldánsins í Istanbul. Hún hefur ekki sama þunga og Rififi. Önnur fræg mynd þeirra nefnist Aldrei á sunnudögum en þar er að finna frægt lag eftir tónskáldið Manos Hadjidakis.