Manni er sagt að maður eigi að sjóða vatnið í Reykjavík áður en maður drekkur það en svo er manni líka sagt að það sé allt í lagi að drekka vatnið. Upplýsingarnar eru heldur misvísandi. Voru veitur of seinar til að tilkynna um vatnsvandræðin eða er þetta því líkt smámál að ekkert hefði þurft að tilkynna – stormur í vatnsglasi?
Þetta kemur auðvitað nokkuð á óvart. Maður er einhvern veginn alinn upp við það hér á Íslandi að þurfa aldrei að hafa áhyggjur af vatni – ólíkt megninu af íbúum jarðarinnar.
En það horfir til vandræða þegar hinni gosþambandi þjóð er tilkynnt að nú sé ekki framleitt kók í landinu. Geta Íslendingar verið lengi án kóks?
Sjálfur var ég sendur út, eftir að hafa drukkið hálfa könnu af vatni með þorskinum sem var í kvöldmat, til að afla birgða af vatni. Kom heim með tvo kassa af ítölsku ropvatni úr Costco. Fínna verður það ekki. Ef einhver er í vandræðum þá á ég dálitlar birgðir.
Frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins stekkur fram og vill fá skýringar. Eyþór má eiga að hann er duglegur að notfæra sér tækifærin sem bjóðast í kosningabaráttunni. Hlýtur að teljast sigurstranglegur með þessu áframhaldi. Hvað segir Dagur?
Svo er það þessi ráðstefna sem er auglýst í Fréttablaðinu í dag. Verðmætin í vatninu. Með hinum fróðlegustu erindum eins og „Útkall, slys á vatnsverndarsvæði“ og „Mikilvægasta hráefnið í matvælaframleiðslu“ (ræðumaður frá Coca-Cola. Greinilega ekki vonum seinna að halda þennan fund.