Kaupmannahöfn, höfuðborg Íslands, er röð sex þátta sem nú er sýnd á RÚV. Þar röltum við Guðjón Friðriksson um söguslóðir Íslendinga í Höfn, Guðjón miðlar af sínum einstaka fróðleik, við komum honum í sjónvarpsbúning. Í fyrsta þættinum byrjuðum við nálægt höfninni og við virkið sem nefnist Kastellet. Við fórum síðan í göturnar í kringum Amalienborgarhöll. Þar varð meðal annars á vegi okkur Fæðingarstonunin, þar sem meðal annars Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir lærði sitt fag. En Fæðingarstofnunin gengdi líka öðru hlutverki, fóstureyðingar tíðkuðust ekki í þá tíð, og það kom fyrir að ungar konur voru sendar á Fæðingarstofnunina til að eiga börn á laun. Frá slíku tilviki segir til dæmis frá í smásögunni Ungfrúin góða og húsið eftir Halldór Laxness. Börnin voru svo oftast gefin.
Guðjón sagði átakanlega sögu við Fæðingarstofnunina. Aðalpersónan er Marta Kristín Eiríksdóttir, ung kona, ættuð úr Holtum í Rangárvallasýslu. Hún var send yfir hafið af barnsföður sínum sem var Ásgeir Sigurðsson, konsúll í Reykjavík, stór karl. Skömmin var svo mikil, segir Guðjón, að Marta vildi helst deyja. En hún fæddi barn, í prótokollinum hefur það bara tölu, en drengurinn var skírður Emil eftir stýrimanni sem á skipinu sem Marta sigldi á og hafði reynst henni góður.
Síðan varð hún að láta frá sér barnið og verða brjóstamóðir fyrir önnur börn. Drengurinn var sendur í fóstur til Íslands, hann ólst upp í Hruna í Hrunamannahreppi og varð síðar mektarmaður þar í sveit.
Marta var árum saman í Kaupmannahöfn, en síðar henti það hana að giftast írskum fyrirmanni. Þá mátti ekki fréttast að hún hefði fyrr átt barn í lausaleik, eiginmaðurinn var kaþólskur. En eftir andlát hans flutti hún til Íslands, það urðu sættir milli þeirra mæðginana, og nú hvíla þau saman í kirkjugarðinum í Hruna, eins og má sjá á þessari mynd úr þættinum.
Við sögðum líka frá því að nokkrar áhyggjur hafi verið uppi vegna siðferðisástands íslenskra kvenna sem fóru til Kaupmanahafnar. Mestur straumurinn var undir lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar, þegar danskir menningarstraumar voru hvað sterkastir á Íslandi. Stór hluti íslensku þjóðarinnar flutti til Vesturheims, en það voru líka miklir fólksflutningar til Danmerkur.
1912 skrifaði Ingibjörg Ólafsson, íslensk kona sem var foringi hjá KFUK í Kaupmannahöfn (sjá mynd að neðan), bækling sem hún kallaði Um siðferðisástandið á Íslandi. Þar hneykslaðist hún mjög á ferðum íslenskra stúlkna til Hafnar – sem sumar voru komnar þangað til að eiga börn á laun. Hún má reyndar eiga að hún lét feðurna heyra það líka, það er ljóst að margir þeirra voru í valdastöðu gagnvart hinum ungu konum og þurftu ekki að gjalda fyrir eins og þær.
Ingibjörg sagði að margar af þessum stúlkum kæmu ekki heim aftur, þær fái ekki vinnu, sumar hafi fyrirfarið sér og aðrar hafi beinlínis farið út á götur og selt sig til að afla peninga. Það sem hún hneykslaðist mest á var að konur væru í íslenskum búningi að selja sig.
Þessu var reyndar andmælt, meðal annars af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Kristínu, systur Einars Benediktssonar. Þær töldu þetta vera alltof mikla dómhörku hjá Ingibjörgu blessaðri.
Fyrsta þátt Kaupmannahafnar, höfuðborgar Íslands, má sjá hér. Annar þáttur er á dagskrá á miðvikudagskvöld. Þar höldum við áfram göngu okkar um hverfin kringum Amalienborgarhöll, víkjum að hinni nokkuð skrítnu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem fór meðal annars í sjálfri konungshöllinni, förum á slóðir íslenskra listamanna í Konunglega leikhúsinu og Listaakademíunni, lítum inn á einn af uppáhaldsveitingastöðum Jóns Sigurðssonar og kynnumst nokkrum af Íslandskaupmönnunum sem verða á vegi okkar í þáttunum.