fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Gamla húsið í Skólastræti

Egill Helgason
Föstudaginn 22. desember 2017 23:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér er ljósmynd frá Reykjavík, tekin um 1870. Mér er málið dálítið skylt, því á myndinni má sjá húsið þar sem ég bý, Skólastræti 5. Ég held að það sé elsta hús sem er notað til íbúðar í Reykjavík. Hér er átt við hið reisulega hús sem er fremst á myndinni, en framan við það er skúrræksni.

Húsið var byggt 1856 af Einari Jónssyni snikkara sem byggði fleiri hús í Reykjavík. 1879 var svo bætt ofan á það einni hæð og þannig er það enn. Eins og eðlilegt er með svona hús þarfnast það viðhalds og viðgerða. Það er máski óheppilegt í því sambandi að ég er ekki sérlega handlaginn. En ég kann afar vel við að búa í þessu húsi. Við fjölskyldan sofum bak við gluggana sem þarna sjást – maður hugleiðir stundum allt fólkið sem hefur verið í húsinu á undan manni. Hér var víst mikið músíserað á 19. öldinni – og svo heyrði ég einhvern tíma að í húsinu hefði verið fyrsta saumavél í Reykjavík.

Einu sinni skilst mér að hafi búið fullt af fólki í húsinu, nú er það miklu færra. Það er þróunin, fólk vill meira pláss. Húsakynnin hér þykja varla mjög stór á íslenskan nútímamælikvarða.

Byggingarstíllinn er norrænn og gamall. Hús af þessu tagi má finna í Noregi og Danmörku. Grunnurinn undir húsinu er hlaðinn og veggirnir þar ógurlega þykkir, en lofthæðin er ekki mikil. Þetta er mjög lifandi hús, getur orðið kalt á vetrum en hlýtt og bjart á sumrin. Þegar leið á 19. öldina ruddi annað byggingarlag sér rúms.

Vinur minn frá því í bernsku, Illugi Jökulsson, býr svo í húsinu fyrir ofan – það sést líka á myndinni tel ég vera. Þar bjó Erlendur snikkari og síðar sonur hans Einar Erlendsson sem var húsameistari og hafði teiknistofu í húsinu.

Við sjáum þarna grjótgarða. Enn er nokkuð eftir af þeim á lóðinni hjá mér. Ég veit ekki hvað þeir eru gamlir – en þeir eru örugglega mun eldri en garðurinn sem yfirvöld stóðu í að friða við höfnina. Myndin er tekin upp þar sem nú er Amtmannsstígurinn. Ég hygg að flest húsin á myndinni séu horfin, enda virka þau sum býsna hrörleg. Sjónarhornið er eins og frá norðausturhorni Menntaskólans – hann er ekki nema tíu árum eldri en húsið mitt. Myllan sem sést á myndinni var við Bankastræti.

Skólastræti myndi ég segja að tilheyri Kvosinni, sé efst í henni. Fyrir ofan hefjast Þingholtin. Þau eru nefnd eftir tómthúsbýlinu Þingholti en umhverfis það reis síðar þyrping bæja sem farið var að nefna Þingholtin. Þingholtabæina má sjá þarna efst á myndinni. Þar sem Skólastræti 5b stendur var á seinni hluta 18. aldar lítið þinghús þar sem voru haldin dómþing og hreppsfundir, en ekki er til nein mynd af því. En Þingholtin eru nefnd eftir þessu húsi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“