Kosningarnar í Katalóníu leysa engan vanda – þvert á móti, þær magna upp öfgarnar og framlengja deilur um sjálfstæði um ófyrirsjáanlegan tíma. Flokkar aðskilnaðarsinna vinna nauman meirihluta á þingi 70 af 135. Að baki þeim er minnihluti kjósenda, en aðskilnaðarflokkarnir njóta þess að fylgi þeirra er meira í dreifðum byggðum og því nýtast atkvæðin þeim betur.
Stærsti flokkurinn á þingi Katalóníu verður samt Ciudadamos, en það er evrópusinnaður mið-hægriflokkur, ekki ósvipaður Viðreisn á Íslandi. Ciudadamos fékk fjórðung atkvæða, en flokkurinn er algjörlega á móti sjálfstæði Katalóníu. Flokkur fólksins, sem Manuel Rajoy, forsætisráðherra Spánar, tilheyrir beið afhroð.
Kosningarnar hafa semsagt ekki leyst neitt. Þær eru áfall fyrir Rajoy og harðlínustefnu hans. En yfirlýsingar Carles Puigdemonts og fleiri leiðtoga aðskilnaðarsinna um að þeir hafi unnið stóran sigur hafa holan hljóm. Því fer fjarri að umboð þeirra sé sérlega skýrt, en vandinn er sá að hætt er við að flokkar ofstækisfyllstu aðskilnaðarsinnanna verði í oddaaðstöðu.
Skotgrafirnar hafa einfaldlega dýpkað. Innan Evrópusambandsins er lítill stuðningur við sjálfstæði Katalóníu, fyrirtæki kæra sig almennt ekki um aðskilnað, en það mun líta afar illa út ef Rajoy heldur áfram að beita ofbeldi og fangelsunum gegn aðskilnaðarsinnum sem túlka úrslitin eins og þau hafi unnið stórsigur.
Þeir sem fylgjast með aðgerðum katalónskra sjálfstæðissinna taka eftir því hversu fólk er vel til fara á fundum þeirra.