Ég benti á það í pistli í gær að ljóst sé að Kjararáð telur að laun á Íslandi séu alltof lág. Það er afar athyglisvert. Eðli málsins samkvæmt eru fáir betur inni í launaþóun í landinu en þeir sem sitja í Kjararáði.
En það er annað sem vekur athygli. Það er sú staðreynd að úrskurðir Kjararáðs eru einatt afturvirkir. Laun eru hækkuð langt aftur í tímann. Fyrir þá sem hljóta eru þetta nánast eins og happdrættisvinningar, getur skipt fleiri milljónum.
Almennir launþegar sitja ekki við þetta borð. Það er afar sjaldgæft að laun séu hækkuð afturvirkt með þessum hætti – semsagt viðurkennt að þau hafi lengi verið of lág.