Treystir Icelandair á að sett verði lög á verkfall flugvirkja? Formaður samninganefndar flugvirkjanna segir að svo sé í viðtali við Mbl.is.
En ýmislegt mælir á móti því.
Í fyrsta lagi beinist þetta verkfall bara gegn einu flugfélagi. Það er ekki eins og samgöngur hafi stöðvast. Fjölmörg önnur flugfélög eru að flytja farþega til og frá landinu.
Í öðru lagi getur það varla freistað nýrrar ríkisstjórnar – hvað þá ríkisstjórnar þar sem forsætisráðherrann er úr vinstri flokki – að láta sitt fyrsta verk vera að stöðva verkfall með lögum.
Í þriðja og ekki sísta lagi blasir við sú staðreynd að alþingismenn fengu nýskeð risastóra kauphækkun. Þetta gerir þeim býsna erfitt að setja lög á aðra hópa sem eru að krefjast minni hækkana. Eins og sagt var á sínum tíma hleyptu hækkanir þingmannanna svokölluðu Salek-samkomulagi í bál og brand.
Arnbjörn Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður sem nú starfar hjá Kennarasambandinu, skrifar greinarstúf um þetta á Facebook. Þetta er býsna skörp greining hjá Arnbirni:
Það verða ekki sett lög því flugvirkjar lásu stöðuna hárrétt þegar þeir skipulögðu verkfallið. Alþingismenn – sem fyrir nokkrum mánuðum fengu 45% launahækkun – geta í dag ekki sett lög á kjaradeilu þar sem krafan er 20% hækkun. Eina leiðin fyrir Icelandair og SA er því að semja við flugvirkja. Ég spái því að það verði niðurstaðan og kjarabætur í þeim samningi verði talsvert umfram margræddan Salek ramma.
Í kjölfarið koma aðrir hópar fram og vilja sambærilegar hækkanir- og þar með hefst víðfrægt höfrungahlaup.
Ég græt það ekki að launamenn fái mögulega í kjölfarið almennilegar kjarabætur. En ef þetta verður niðurstaðan gæti allt logað á vinnumarkaði með tilheyrandi verkföllum og látum. Það ástand verður að fullu í boði Alþingismanna sem í nettu græðgiskasti tímdu ekki að setja lög á launahækkanir sínar, sem allir aðrir sáu að var úr öllu korti og öllu samhengi. Og ef það verða sett lög á deiluna þá gera þingmenn þar með atlögu að Íslandsmeti í hræsni.