Tvennt kemur mér í jólaskap. Jólaseríur úti í garði og litríkar glitrandi jólakúlur.
Í fyrra vorum við með slappt jólatré, greinarnar fóru fljótt að slúta og kúlur runnu af því og brotnuðu. Sumar þeirra fannst mér vera algjör djásn og óbætanlegar. Þetta var auðvitað erlent jólatré, væntanlega flutt hingað í lest á stóru skipi.
Í gær keypti ég íslenskt blágreni á jólamarkaði Skógræktarinnar við Elliðavatn. Tréð er úr Heiðmörk, höggvið þar í vikunni. Ég bind miklar vonir við þetta tré. Það er feikilega góð lykt af því sem berst hér um íbúðina. Tréð lítur svona út óskreytt.
En jólakúlurnar vantar, það eru ekki nema fjórar eftir. Ég kæri mig ekki um einlitar stílhreinar jólakúlur. Mér finnst ekki að jólaskraut eigi að vera alltof smekklegt. Á hverjum jólum spyr ég hvar pólsku jólakúlurnar séu eiginlega. Þær keyptum við á jólamarkaði í Kraká fyrir meira en áratug. Þær hafa ekki fundist lengi, nema þær komu eitt sinn í leitirnar um hásumar, en hurfu svo jafnskjótt aftur. Ég játa reyndar að ég bý ekki nógu vel um jólaskrautið þegar hátíðin er búin.
En pólsku jólakúlurnar eru ráðgáta. Í minningunni voru þær mjög fallegar. Stórar og litríkar og glitrandi.
Svo eru það kúlurnar sem við keyptum á jólamarkaðnum góða við Elliðavatn, það eru orðin nokkuð mörg ár síðan. Þær hafa verið burðarásinn í jólaskrautinu í allamörg ár. En nú eru þær allar brotnar nema ein. Þessar kúlur voru framleiddar erlendis eða af erlendu fólki – en í íslenskum anda. Sem betur fer er ein kúlan ennþá til. Það er þessi hérna þar sem stendur Pingvallakirkja. Hún er aðal jólaskraut heimilisins.
Ég er hræddur um að nú sé hvergi hægt að fá svona dýrindis kúlur í stað þeirra sem brotnuðu.