Kosningar í Alabama vekja heimsathygli. Það er nokkuð óvenjulegt – en hvað er venjulegt við pólitíska ástandið í Bandaríkjunum. Sjálfur forsetinn, Trump, leggur allt undir til að styðja Roy Moore, sannkallaðan afturhaldskarl sem er ásakaður um margþætt kynferðislegt áreiti. En það er demókratinn Doug Jones sem sigrar – í fyrsta skiptið sem Demókratar hafa öldungadeilarþingmann í Alabama í marga áratugi. Og þá er þetta orðin heimsfrétt – það er ekki bara frambjóðandi Repúblikana sem fékk á baukinn, heldur sjálfur forseti Bandaríkjanna.
En kosningin var mjög naum. Og það er forvitnilegt að sjá hvernig atkvæðin skiptast. Alabama er eitt af þeim ríkjum í Bandaríkjunum þar sem er mest fátækt og eymd. Og það er í Alabama að sumar af hörðustu orrustunum í hreyfingarinnar fyrir réttindum blökkumanna voru háðar. Við sjáum hvernig skiptingin er enn til staðar. Moore nýtur yfirgnæfandi fylgis hjá hvítum körlum, en 98 prósent svartra kvenna kjósa Jones.