Plakatið fyrir Heimsmeistaramótið í fótbolta á næsta ári er mjög athyglisvert. Á því sést markmaðurinn Lev Yashin teygja sig eftir bolta. Yashin var stjarna á Sovéttímanum, frægasti knattspyrnumaðurinn í sæluríki kommúnismans, klæddist svörtu og var kallaður Svarta köngurlóin. Max de Haldevang skrifar á vefinn Quartz og les ýmislegt út úr plakatinu. Þarna séu ýmis tákn sem er merkilegt að skoða á tíma þegar Rússland er að hefja sig upp með því að halda stóran heimsíþróttaviðburð – eins og Ólympíuleikana í Sotsí fyrir fáum árum.
Yashin var úr verkamannafjölskyldu og var sagður hafa fengið sér sígarettu og vodkastaup fyrir leiki. Þetta minnir náttúrlega á tímann þegar Sovétríkin voru annað af tveimur stórveldum – og virtust um tíma eiga í fullu tré við Bandaríkin. Yashin hefur fingurna á bolta sem umbreytist í jörðina eins og hún er utan úr geimnum.
Þarna eru minni tímanum þegar Rússar kepptu við Bandaríkjamenn í geimferðum. Rússar hafa reyndar mikla þörf á að gera efnahagslíf sitt miklu fjölbreyttara og það er sagt að Pútín muni boða tæknivæðingu næst þegar hann fer í forsetaframboð – og vinnur auðvitað. En eins og sakir standa geta Rússar státað sig af því að hafa hrist upp í Bandaríkjunum með sveit tölvuhakkara, internettrölla og netmálaliðum sem eru meðal annars unglingar frá Makedóníu. Fyrir utan kjarnorkuvopnin og hin stóra her er er Rússland vanþróað ríki. En þarna er minnt á að Rússar hafi eitt sinn “átt framtíðina”.
Plakatið er í anda konstrúktívisma, stefnu í list og hönnun sem varð vinsæl í Rússlandi á árunum eftir byltinguna 1917. Það er til mikið af kröftugri áróðurslist í þessum stíl. Hún lagði áherslu á kraft, hugarflug og nýsköpun. Síðar vék hún fyrir hinum þunglamalega sósíalrealisma Stalínstímans – það var allt steindautt – en ýmislegt úr konstrúktívisma, sem hafði að megininntaki að listin skyldi vera í þjónustu samfélagsins (les. verkalýðsins), heldur áfram að skjóta upp kollinum í hönnun og auglýsingagerð.