fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Um Iðnaðarbankann – en dálítið úr einu í annað

Egill Helgason
Föstudaginn 1. desember 2017 11:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég man fyrst eftir Iðnaðarbankahúsinu við Lækjargötu þegar það brann 1967. Þá fuðruðu líka upp timburhús sem voru í kring, lyktina lagði yfir bæinn, ég gleymi henni aldrei. Þau voru ekki endurreist, en Iðnaðarbankinn stóð áfram. Þetta var aldrei neitt sérlega fallegt hús og engin stórkostleg eftirsjá í því. Maður vonar helst að það verði ekki einhver skelfing sem kemur í staðinn.

 

 

Ég átti samt bankaviðskipti þarna um árabil, og fjölskylda mín líka. Bankinn var partur af mínu nærumhverfi, þorpinu eins og ég kalla það stundum. Alla og Palli í bankanum voru vinir okkar. Tengdafaðir minn labbaði oft þarna yfir í bankann, stundum bara til að kíkja í kaffi – það var partur af hversdeginum hans.

Nú eru öll bankaútibú horfin úr miðbænum, við erum öll í viðskiptum á netinu. Í raun vinnum við alls kyns störf fyrir bankann sem hann sá um áður. Að sýnu leyti er þetta er ósköp þægilegt, og manni fannst þetta gríðarleg tækninýjung á sínum tíma, en ýmis mannleg samskipti hverfa við  þessa vélvæðingu.

Bensínafgreiðslumennirnir hjá Skeljungi voru allir saman reknir um daginn. Ég skrifaði grein um bensínafgreiðslumennina á Birkimelnum fyrir nokkrum árum.  Þar var Guðmundur Benjamín fremstur í flokki, feikilega vinsæll meðal Vesturbæinga, um hann er þessi frétt á Vísi. Um daginn var póstmaðurinn sem bar út hjá okkur um langt árabil fluttur til í starfi. Hann þekkti allt fólkið sem bjó í hverfinu, bréf bárust til viðtakanda og ekkert rugl. Það er þó bót í máli að ég er farinn að hitta Kidda með póstpoka hér og þar um bæinn, hann er glaður og reifur. Kiddi bjó í 30 ár í New York, var aðallega í því að liðsinna fólki. Stefán Jón Hafstein skrifaði bók um hann. Kiddi er alltaf í jakkafötum með bindi. Honum finnst ekki kalt hérna á veturna miðað við New York.

 

 

Svona lítur það út sem kemur í stað Iðnaðarbankahússins. Þarna er reynt að brjóta upp fletina í húsinu í margar einingar, svo ekki sé ein stór og yfirgnæfandi framhlið. Framhliðin næst okkur minnir dálítið á gamalt hús sem stendur í Kirkjstræti, svo má greina Hæstarétt í þeirri næstu, svo mætti jafnvel segja að við séum komin upp í Borgartún. Margir staldra reyndar við Ferrari-bifreiðina fremst á myndinni. Þarna ríkir mikið góðæri.

 

 

Þetta rímar samt ágætlega við hús sem voru byggð í Lækjargötunni fyrir um tveimur áratugum – hvort sem það er gott eða ekki. Annað var reist af Hinu íslenska bókmenntafélagi, hitt hýsti í upphafi verslunina Top Shop og var í eigu Baugs.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka