Það verður að segjast eins og er að framsetning skoðanakannana getur verið dálítið skrítin. Er það vegna þess að fólk man svo stutt aftur – og nennir ekki að fletta upp hlutunum?
Af því hvernig skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag er kynnt mætti ráða að Sjálfstæðisflokkurinn sé að fara að vinna stórsigur í kosningunum en Vinstri græn tapa. Það segir í fyrirsögn að Sjálfstæðisflokkurinn sé með afgerandi forystu.
Staðreyndin er hins vegar sú að miðað við úrslit kosninganna 2016 er Sjálfstæðisflokkurinn að tapa 5 prósentustigum og 4 þingmönnum. VG er að bæta við sig fylgi sem nemur 4 prósentustigum og bæta við sig 4 þingmönnum.
Nú er alls ekki víst að þetta verði niðurstaða kosninganna. Sigur VG er að sönnu minni en stefndi í um tíma, að sama skapi er Samfylkingin að rétta mjög úr kútnum. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig á síðustu dögunum fyrir kosningarnar 2016 og fékk viðunnandi útkomu. Nú stefnir í eina verstu kosningu sem flokkurinn hefur fengið fyrr og síðar – og það getur haft sín áhrif að Viðreisn er að bæta við sig fylgi og Miðflokkurinn virðist naga í sjálfstæðisfylgið.