fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Jónas Kristjánsson, Hallgrímur og Gunni Helga, Guðrún Pé, Biggi lögga og fleira frægt fólk á framboðslistum

Egill Helgason
Miðvikudaginn 18. október 2017 11:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er gaman að renna augunum yfir framboðslista til að sjá hvort maður þekkir fólk á þeim, jafnvel einhverja sem maður átti ekki von á að væru í framboði. Fréttablaðið birti í morgun tólf blaðsíðna aukablað sem er auglýsing frá landskjörstjórn um framboðslista við kosningarnar 28. október. Þar er að finna nöfn allra frambjóðenda.

Við skulum láta þá sem eru efst á listum liggja milli hluta, þeir hafa verið kynntir, en skoða aðeins hvaða fólk er neðar á listunum.

Maður tekur til dæmis eftir því að Jónas Kristjánsson, ritstjóri og einn helsti blaðamaður á Íslandi í marga áratugi, er í framboði fyrir Pírata. Hann er í heiðurssætinu í Suðvesturkjördæmi. Í heiðurssætinu hjá Pírötum í Reykjavík norður er skáldkonan og forsetaframbjóðandinn Elísabet Jökulsdóttir.

Það leynir sér ekki að Vinstri græn höfða vel til listamanna. Ragnar Kjartansson myndlistarmaður er í 9. sæti í Reykjavík norður og sama lista er söngkonan Sigríður Thorlacius í 19. sæti. Skáldið og rapparinn Kött Grá Pje, eða Atli Sigþórsson, er í 14. sæti í Reykjavík suður en þar er rithöfundurinn Úlfar Þormóðsson í 21. sæti.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands, er í 13. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi en þar er kvikmyndaleikstjórinn Grímur Hákonarson í 24. sæti. Gunnar Þórðarson tónskáld er svo að finna í 8. sæti í Suðurkjördæmi.

Hjá Samfylkingunni er Hallgrímur Helgason í 8. sæti í Reykjavík norður, þar er Edda Björgvinsdóttir leikkona í 11. sæti, Birgir Þórarinsson eða Biggi veira úr Gusgus í 12. sæti en Dr. Gunni í 20. sæti. Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsisn er í 8. sæti í Reykjavík suður.

Gunnar Helgason, rithöfundur, leikari og bróðir Hallgríms,  er í 7. sæti í Suðvesturkjördæmi og þar er Hjálmar Hjálmarsson leikari í 10. sæti. Hann leiddi eitt sinn Næst besta flokkinn í Kópavogi.

Hjá Viðreisn vekur athygli Guðrún Pétursdóttir, líffræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, en hún er í heiðurssæti í Reykjavík norður. Þar er Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara, í 8. sæti. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, er í heiðurssætinu í Reykjavík suður. Söngkonan Ólöf Kolbrún Harðardóttir er í 25, sæti hjá Viðreisn í Suðvesturkjördæmi og þar er athafnakonan Kristín Pétursdóttir í 21. sæti.

Biggi lögga, eða Birgir Örn Guðjónsson, er í 3. sæti hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík suður, en það vekur athygli að Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður, er í heiðurssætinu í Reykjavík suður. Hann fór semsagt ekki með Sigmundi. Það gerðu heldur ekki fyrrverandi alþingismennirnir Haraldur Einarsson og Páll Jóhann Pálsson sem eru neðarlega á lista í Suðurkjördæmi.

Knattspyrnumaðurinn Davíð Þór Viðarsson er í 11. sæti í Suðvesturkjördæmi hjá Sjálfstæðisflokknum, en annar fótboltamaður, Rúrik Gíslason, er í 13. sæti í Reykjavík suður. Þar er Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, í heiðurssæti, en hann leiddi listann í síðustu kosningum. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er í heiðurssæti í Suðvesturkjördæmi.

Guðlaugur G. Sverrisson, fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur sem einnig hefur setið í stjórn RÚV, er í öðru sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík norður. Þar er Jón Hjaltalín Magnússon í 7. sæti, en hann er gamall handboltakappi og fyrrverandi formaður Handknattleikssambands Íslands. Atli Ásmundsson, fyrrverandi ræðismaður sem eitt sinn var hægri hönd Halldórs Ásgrímssonar, er í heiðurssætinu.

Í Suðurkjördæmi er að finna á lista Miðflokksins Sigurð Þ. Ragnarsson sem gat sér gott orð fyrir að flytja veðurfréttir í sjónvarpi, en í 14. sæti í Reykjavík suður er kvikmyndaleikstjórinn Hjálmar Einarsson.

Leikkonan Guðlaug Elísabet Ólafdóttir er í heiðurssætinu hjá Bjartri framtíð í Suðurkjördæmi, en í Suðvesturkjördæmi er grínistinn og handritshöfundurinn Sigurjón Kjartansson í 24. sæti fyrir flokkinn. Þeir Óttarr Proppé eru saman í Ham. Annar Ham-ari, Sigurður Björn Blöndal borgarfulltrúi, er í heiðurssætinu í Reykjavík norður.

Það verður að segjast eins og er að ekki er mikið af frægu fólki í framboði fyrir Flokk fólksins – kannski er alþýðan þar? En þar má nefna Ásgerði Jónu Flosadóttur, formann Fjölskylduhjálpar Íslands, sem er í 4. sæti í Reykjavík suður, veitingamanninn Margeir Margeirsson sem er í 16. sæti á sama lista, Svein Guðjónsson, blaðamann sem eitt sinn var í hljómsveitinni Roof Tops, sem er í 5. sæti í Reykjavík norður og Karl Berndsen hárgreiðslumann sem er í 7. sæti á sama lista.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?