Sjálfstæðisflokkurinn á ekki sjö dagana sæla. Hann hefur sjaldan mælst jafn lítill í skoðanakönnunum og fréttaflutningurinn sem tengist honum er mestanpart neikvæður.
En flokkurinn á auðvitað eftir að ræsa kosningavél sína. Í síðustu kosningum stundaði hann miklar úthringingar – það var hringt í gríð og erg í kjósendur. Heimildir herma að Sjálfstæðisflokkurinn muni hafa sama háttinn á.
Vinstri græn hafa hins vegar verið að ganga í hús. Það er ekki eins skjótvirk aðferð, en hún er óneitanlega persónulegri.
Sjálfstæðisflokkurinn er í þeirri óvenjulegu stöðu að tveir flokkar sækja að honum á miðum þar sem hann hefur fengið að róa einn. Það er ljóst að bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins taka fylgi frá Sjálfstæðisflokknum, en skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem Mogginn birti í gær sýnir reyndar að fylgi færist frá Sjálfstæðisflokki til Vinstri grænna. Það er nokkuð athyglisvert – maður skyldi ætla að þessir flokkar væru höfuðandstæðurnar í íslenskri pólitík, en svo er máski ekki.
En það er ekki auðvelt fyrir Bjarna Benediktsson að leiða flokkinn í kosningabaráttu og þurfa að vera í stöðugri vörn. Hugsanlega eru líka dagar hans sem formanns taldir ef niðurstaðan fyrir Sjálfstæðisflokkinn verður lík þeirri sem skoðanakannanir sýna og hann kemst ekki í ríkisstjórn. Eins og stendur eru sáralitlar líkur á því, en það kann auðvitað að breytast þegar dregur nær kosningum.
Það standa öll spjót á Bjarna og umræðan um hann er mjög neikvæð. Málið sem tengist Sjóði 9 er hins vegar á margan hátt vanreifað og það kann að vera að þar eigi Bjarni talsverðar málsbætur. Til þess þarf auðvitað að rifja upp það sem gekk á dagana fyrir hið eiginlega hrun og setningu neyðarlaganna – ótta fólks um að það myndi tapa því fé sem það átti í bönkum og glundroðanum sem ríkti. Í þessu sambandi má benda á athyglisverða grein sem sagnfræðingurinn Lára Magnúsardóttir birtir á Facebook – það er rétt að taka fram að Lára verður ekki dregin í sérstakan pólitískan dilk. Lára nefnir að einföld tímalína gæti skýrt málið:
Þótt ég sé nokkuð gagnrýninn fjölmiðlaneytandi um sum málefni þarf ég að miklu leyti að reiða mig á það sem aðrir segja til þess að skilja það sem er þar á seyði í fjármálageiranum. Fyrir kemur að slík mál skarist eins og gerðist í greininni í Guardian í gær.
Þar stakk mig setning um að íslenska ríkisstjórnin hafi fallið: „over an alleged attempt to cover up a scandal involving the prime minister’s father and a convicted child sex abuser“.Jafnvel hörðustu nöglum hérlendis hlýtur að þykja ofsagt og of loðið orða það svo að stjórnarslit hafi orðið „vegna hneykslis þar sem faðir forsætisráðherra og dæmdur barnaníðingur komu við sögu“. Því að þessa setningu er nefnilega öðrugt að skilja öðruvísi en svo að málið hafið snúist afbrot eða eitthvað hræðilega óviðurkvæmilegt af hálfu föðurins með dæmdum kynferðisbrotamanni, eða í tengslum við hann. Á hinn bóginn tekur blaðið fram að óvíst sé hvort reynt hafi verið að hylma yfir málið. Þessi kæruleysislega fullyrðing er afar óvönduð blaðamennska.
Hún varð til þess að ég lagði það á mig að lesa vandlega greinar Stundarinnar um meginmál Guardian greinarinnar, því þaðan eru upplýsingarnar komnar. Það er sala hlutabréfa í svokölluðum Sjóði 9 í október 2008. Þar fannst mér skorta á skýra tímalínu vegna þess að „hneykslið“ þar (sem raunar tekið fram að sé ekki ólöglegt), snýst um það hvort Bjarni Benediktsson hafi haft aðgang að upplýsingum á undan almenningi sem hann hafi byggt á þá ákvörðun sína að selja bréfin áður en allt fór til andskotans. Þess vegna fletti ég upp fréttum um þennan sjóð frá septemberlokum og fram til 6. október það ár.
Í fjölmiðlum frá þessum tíma sá ég ekki betur en að vandræði þessa sjóðs 9 hafi verið mjög til umfjöllunar og stjórnendur hans voru harðlega gagnrýndir fyrir eitt og annað, meðal annars í lesendabréfum. Samkvæmt Stundinni bað Bjarni Benediktsson um sölu á sínum bréfum úr þessum sjóði 2. október og hún fór í gegn rétt fyrir allsherjarlokun banka þann 6. en í millitíðinni hafði sjóðnum verið lokað í einhverja daga. Miðað við umfjöllunina sýnist mér að ekki hafi þurft ekki annað en smááhuga á sjóðamálum, svo ekki sé minnst á eign í þessum tiltekna sjóði – til að vita að allt var þar á niðurleið um þessar mundir.
Fyrstu viðbrögð mín voru að þeim sem ekki hefði haft vit á að selja hlut sinn í Sjóði 9 í byrjun október 2008 væri varla treystandi fyrir nokkru verkefni. Það virðist í samræmi við vörn Bjarna í málinu, en niðurstaða Stundarinnar og Guardian er öfug, að það hafi einmitt verið sérlega grunsamlegt að nokkur skuli yfirleitt hafa selt hlutabréf á þessum tíma.
Til þess að fá samhengi í hlutina þyrfti ég sem almennur lesandi að fá þær upplýsingar sem máli skipta settar upp í skýra tímalínu, þar með talið hve mikið af þeim var opinbert áður en Bjarni seldi. Þá ætti ef til vill einnig að koma fram hve margir aðrir seldu sína hluti í þessum sjóði á þessum tíma til þess að vita hvort salan sem hér um ræðir var einstök. Ef svo er gæti það ef til vill bent til þess að seljandinn hefði haft aðrar forsendur en hinir eigendurnir.
Þetta kann allt að vera vitleysa hjá mér og ábyggilega eru fleiri atriði sem má setja skýrar fram til þess að fólk eins og ég geti átt séns í að skilja málið. Þetta skulda fjölmiðlar landsmönnum núna því að það er varla á mann leggjandi að lesa fleiri langlokur um þetta.
Frétt Morgunblaðsins um Sjóð 9 2. október 2008, fjórum dögum fyrir setningu neyðarlaganna.