Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, segir að eftir atkvæðagreiðsluna í gær sé búið að ryðja leiðina fyrir fulla sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóna. En er það svo. Því er slegið upp í fjölmiðlum að 90 prósent Katalóna hafi kosið með sjálfstæði. En ekki er það svo einfalt. Einn gallinn við atkvæðagreiðsluna er að þar voru engin ákvæði um þátttöku. Viðbrögð Spánarstjórnar hafa vissulega eflt sjálfstæðiskröfu Katalóna, en atkvæðagreiðslan sem slík veitir ekki umboð til þess að sjálfstæðisleiðin sé farin. En kosningin er afar fjarri því að leiða fram raunverulegan vilja kjósenda og því er hún auðvitað ónýt sem slík.
Eina framhaldið sem er byggjandi á henni eru viðræður við stjórnina í Madrid þar sem sjálfsstæðissinnar hafa vissulega styrkt stöðu sína – en aðallega vegna viðbragða Spánarstjórnar, ekki vegna hinnar óðagotslegu atkvæðagreiðslu.
Óttar Norðfjörð rithöfundur skrifar um þetta frá Barcelona á Facebook:
Hér kemur önnur hlið á málunum í Katalóníu sem minna fer fyrir, enda er forkastanlegt lögregluofbeldið í gær fyrirsögnin út um allan heim. Svo gott sem hver einasta skoðanakönnun síðustu ár hefur sýnt að meirihluti Katalóna vill EKKI sjálfstæði, og sú allra síðasta sýndi einungis 40% stuðning við sjálfstæði. Jú, í dag munið þið lesa fréttir að sjálfstæðissinnar hafi unnið kosninguna í gær með 90% fylgi, en þið munuð ekki lesa að kjörsókn var afleit (42%) eða að flestir sem eru mótfallnir sjálfstæði mættu ekki á kjörstaði því þeir töldu kosninguna ólöglega, illa skipulagða, knúna í gegnum katalónska þingið á litlum meirihluta, eða hreinlega nenntu ekki að standa í þessu, því það var fyrirséð að kjörstaðir yrðu í rugli (fólk komst t.d. upp með að kjósa tvisvar). Í Katalóníu búa 7,5 milljón manns, 5,3 voru á kjörskrá, en aðeins um 2 milljónir kusu með sjálfstæði í gær – og munu stjórnendur Katalóníu samt sem áður líklega lýsa yfir sjálfstæði í dag eða á morgun. Það finnst mér ansi bratt. Munum að það er „þögull meirihluti“ hér sem vill ekki sjálfstæði og margir þeirra álíta að um valdaránstilraun sé að ræða af hendi popúlista og þjóðernissinna. Bara smá „food for thought“ áður en þið póstið Declare Independence með Björk.