Það eru áhugaverðar niðurstöður í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Vinstri græn eru á mikilli siglingu og mælast með 30 prósenta fylgi.
En það sem er ekki síst eftirtektarvert er hversu mikið af þessu fylgi VG kemur frá konum. Hvorki meira né minna en 40 prósent kvenna segjast styðja flokkinn í skoðanakönnuninni, fylgið meðal karla er mun lægra, eða 20 prósent.
Kristrún Heimisdóttir sem eitt sinn starfaði í Samfylkingunni segir á Facebook að áður hafi sá flokkur haft þetta mikla kvennafylgi:
40% fylgi meðal kvenna á landsvísu er það sem Samfylkingin hafði lengi en VG fær nú og tryggir þeim þessa yfirburði í þessari könnun. Saga þessarar kynjuðu sveiflu er illa vanmetin í pólitískri umræðu á Islandi. T.d. tók enginn eftir því þegar Samfylkingin tapaði þessu forskoti – ég man hvenær en fer ekki nánar út í það.
Líklega þurfa nú aðrir flokkar að huga að því hvernig þeir nái til kvenna.