fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Sjálfstæðismenn enn og aftur í vandræðum í Reykjavík

Egill Helgason
Föstudaginn 25. ágúst 2017 11:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef unnið með Páli Magnússyni víða og oft á starfsferli mínum. Við vorum meira að segja ungir menn saman á Tímanum, það er lengra síðan en ég kæri mig að rifja upp. Ég hef ekkert nema gott af af Páli að segja, hann er traustur vinur og prýðilegur vinnufélagi og yfirmaður, skemmtilegur en stundum dálítið örgeðja.

En sú hugmynd að bjóða Pál fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík er dálítið langsótt. Þar er ég ekki að ræða um mannkosti hans, heldur þá staðreynd að Páll hefur lengst af búið í Garðabænum og í Vestmannaeyjum. Þar er hann alinn upp, sonur Magnúsar bæjarstjóra, og ekki fer Palli í launkofa með hvað honum þykir vænt um eyjarnar sínar. Ég er reyndar sammála honum um hvað þær eru frábærar.

Síðast bauð Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík fram mætan sveitarstjórnarmann frá Ísafirði, Halldór Halldórsson. Hann hafði ekki erindi sem erfiði. Og svo var það ævintýrið með Björn Bjarnason sem átti að geta sigrað Ingibjörgu Sólrúnu og R-listann í borginni. Það mistókst. Vinstri menn hafa stjórnað Reykjavík allar götur síðan 1994, undantekningin er stuttur tími þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann með Ólafi F. Magnússyni og eftir það tímabil þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir var borgarstjóri í samstarfi við Framsókn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú samþykkt leiðtogaprófkjör í borgarstjórn. Það verður kosið borgarstjóraefni sem hefur síðan hönd í bagga með að velja á listann. Enginn sem situr nú í borgarstjórninni virðist líklegur til að gera stóra hluti í slíku prófkjöri, en Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir hafa áhuga. Einnig eru nefnd utan úr bæ Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar.

Hvorugt þeirra hefur gefið sig sérstaklega að borgarmálum, þau hafa aðallega starfað bak við tjöldin í stjórnmálunum, bæði eru í ágætu djobbi, og spurning hvort því sé fórnandi fyrir vist í borgarstjórn, líklega í minnihluta. Svanhildur er reyndar náin vinkona Gísla Marteins Baldurssonar – sem á sinn hátt hefði kannski verið ágætt borgarstjórnarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ef hann hefði ekki orðið algjörlega viðskila við ákveðin öfl þar innan dyra í skipulagsmálum.

Líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn nái að vinna borgina eru að sönnu ekki miklar. Fylgið í borginni færist milli flokka á vinstri vængnum – þótt til dæmis Samfylkingin og Björt framtíð tapi næst er sennilegast að fylgið renni til Pírata eða Vinstri grænna. Og það þýðir að áfram heldur vinstra samstarf í Reykjavík. Eins og staðan er bendir margt til þess að VG gæti orðið stærsti vinstri flokkurinn í borginni – og þar með eignast borgarstjóra.

Það eina sem manni sýnist að gæti sett strik í reikninginn er framboð Flokks fólksins með Ingu Sæland í fararbroddi. Hún hefur slíkan hljómgrunn að það gæti riðlað valdahlutföllunum í borginni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka