fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
Eyjan

Guðmennið – og hið óseðjandi tækniblæti

Egill Helgason
Miðvikudaginn 26. júlí 2017 15:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við horfum upp á blinda framrás tækninnar. Tæknidýrkun og tækniblæti hefur slík völd í lífi okkar að talið er fráleitt að leggja nokkurs staðar stein í götu tæknilegrar þróunar – við tölum reyndar yfirleitt um „framþróun“ þótt ekki sé alltaf víst að það eigi við.

Hér er til dæmis athyglisvert viðtal við forstjóra hjá Mercedes Benz, mann sem skartar veglegu yfirvaraskeggi, þar sem hann talar um hluti sem munu óhjákvæmilega verða á næstu árum og áratugum.

Eitt af því er til dæmis hvernig störf munu hverfa. Þá erum við ekki bara að tala um störf bílstjóra, afgreiðslu eða verksmiðjufólks, heldur líka til dæmis störf lögfræðinga. Þarna er beinlínis varað við því að ungt fólk mennti sig í lögfræði.

Jú, svo er þarna talað um gervigreind sem verður miklu gáfaðri en mannkynið – sem í sjálfu sér er skelfileg tilhugsun – tæki sem greina heilsufar okkar á augabragði og stóraukið langlífi.

Langlífið verður örugglega mest fyrir þá sem hafa efni á því. Það er jafnvel talið að ríkasta fólkið geti nánast keypt sér eilíft líf þegar líður á þessa öld. Heilsufarsgreiningar geta haft það í för með sér að fólk með undirliggjandi eða arfgenga sjúkdóma verður annars flokks þegnar. Og þegar störfin leggjast af, hvað kemur þá í staðinn? Auðfyrirtæki munu sem fyrr hirða ágóðann – staða þeirra hefur aldrei verið sterkari en nú. Fólk sem getur ekki fengið neitt að starfa upplifir tilgangsleysi. Kannski verður því séð fyrir einhverri lágmarksframfærslu? Og hver mun borga skatta þegar engin eru störfin?

Margt í þessu er líka fagurt og gott, eins og framtíð þar sem við notum hreina orku, þar sem finnast lækningar við sjúkdómum sem nú eru banvænir, þar sem við sameinumst um sjálfkeyrandi bíla sem munu rýma til í borgunum (ég hygg reyndar að spádómur Mercedesmannsins um þá sé nokkuð reyfarakenndur, það mun taka langan tíma að losna við einkabílinn). En annað er bókstaflega dystópískt, það er framtíð sem er furðu lítið rædd í stjórnmálunum og í fjölmiðlum. Við sættum okkur við það að leyfa tækninni að æða áfram á sjálfstýringu. Það þykir beinlínis hallærislegt að andæfa henni.

Í þessu framhaldi má nefna bók eftir einn merkasta hugsuð samtímans, ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari. Bókin nefnist Homo Deus og er framhald af bók hans sem heitir Sapiens. Í Homo Deus segir frá því hvernig mannkynið hefur að talsverðu leyti frelsast undan hungri, sjúkdómum og stríði sem hrjáði það áður, en um leið drottnar það yfir náttúrunni, eyðileggur hana og hefur gert önnur dýr undirgefin sér – og meðferðin á sumum tegundum er vægast sagt hryllileg.

Um leið er spáð í framtíð mannsins meðal annars, hvernig „Guðmennið“ mun í skjóli tækninnar teygja sig í átt til enn meiri drottnunar yfir jörðinni og til ódauðleika, hinn skelfilega ójöfnuð og óréttlæti sem því getur fylgt þegar maðurinn líkt og rennur saman við tæknina. Hugsanlegt er að þá eigum við eftir að sjá stéttaskiptingu sem er meiri en hefur þekkst í langan tíma – og auðstétt sem verður sífellt meira óseðjandi, ekki bara í peninga heldur líka meiri tækni og lengra líf. Margt af þessu er hrollvekjandi aflestrar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum