fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Shostakovits á Íslandi – með tvískipta og hrellda sál

Egill Helgason
Föstudaginn 21. júlí 2017 03:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í bók breska rithöfundarins Julians Barnes um Dmitri Shostakovits segir frá því þegar flugvél sem tónskáldið er í þarf að lenda í Reykjavík. Þetta er árið 1949, Shostakovits er á leiðinni ásamt sovéskri sendinefnd frá friðarþingi sem var haldið í Bandaríkjunum. Það fékk reyndar fremur snubbóttan endi. En þingið og þessi ferð gegnir nokkuð stóru hlutverki í bókinni sem nefnist The Noise of Time.

Stalín skikkaði Shostakovits til að fara til Bandaríkjanna, þar var honum gert að lesa upp ræðu þar sem hann meðal annars gekkst einu sinni enn við syndum sínum frá því á tíma hreinsananna miklu, hann hafði samið óperu sem harðstjóranum mislíkaði mjög. Og í ræðunni þurfti hann líka að fordæma hinn landflótta Rússa Igor Stravinsky – sem Shostkovits taldi til mestu tónskálda aldarinnar. Þetta var semsagt sorgarsaga eins og margt í lífi Shostakovits, þessa taugaveiklaða tónsnillings sem lifði svo hörmulega tíma.

Í bók Barnes segir frá því að flugvélin hafi verið biluð og Shostakovits þurft að dvelja tvo daga á Íslandi.

When the reached Iceland, the plane had broken down, and they waited two days for a replacement.

Ég hef lengi talið mig aðdáanda Shostakovits, en verð að viðurkenna að ég kannaðist ekkert við þetta. Það var ekki mikið sem kom upp við leit, þar til ég fann á vefnum góða timarit.is blað sem var gefið út skamma hríð 1948 til 1949. Það kallaðist Musica, var afar menningarlegt, en útgefandinn var Tage Ammendrup, síðar hljómplötuútgefandandi og útsendingarstjóri í sjónvarpinu.

Þarna er að finna grein í 1. tölublaði 1949. Hún er skrifuð af Alan Moray Williams. Það var Breti sem dvaldi löngum á Íslandi, en hann var bróðir listakonunnar góðkunnu Barböru Moray Árnadóttur. Greinin er feiki skemmtilega skrifuð, lýsir tíðarandanum og hinu tortryggna andrúmslofti kringum Sovétmennina sem voru á Keflavíkurflugvelli (ekki í Reykjavík eins og Barnes skrifar.) Williams kunni líklega rússnesku.

Á þessum tíma var Shostakovits afar frægur, hann hafði verið á forsíðu Time í stríðinu og var mjög hampað í Sovétríkjunum. Staðreyndin var hins vegar sú – og það er ein frægasta saga um samskipti listamanns og harðstjórnar á tuttugustu öld – að tónskáldið þjáðist undan Sovétvaldinu sem jafnframt hlóð hann viðurkenningum eins og Stalínverðlaunum og Lenínorðum.

Greinarhöfundurinn nefnir einmitt óperuna Lafði Makbeð af Mtsensk sem kom honum í mest vandræði hjá stalínistum á tíma ógnarinnar miklu. Hún fékk þá dóma að hún væri „moð en ekki músík“ og það er merkilegt að í hinu stutta viðtali fer Shostakovits með sömu tuggur og ávallt þegar hann var spurður um þetta verk – að gagnrýnin hafi hjálpað honum og fært hann nær fólkinu. Barnes segir frá því að á tíma þessarar gagnrýni hafi Shostakovits sofið alklæddur með föt og tannbursta í tösku fyrir framan lyftuna í húsi sínu – svo fjölskyldan yrði ekki fyrir áfalli þegar NKVD-lögreglan kæmi að sækja hann.

Alan Moray Williams hefur verið glöggur blaðamaður, því hann lýkur greininni um Shostakovits á Íslandi með svofelldum orðum sem ríma afar vel við það sem síðar hefur orðið uppvíst um hið mikla tónskáld:

Er við kvöddum Shostakovich, höfðum við á tilfinningunni, að hann væri maður með tvískifta og hrelda sál.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eiður og Vicente í KR
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“