Eitt af því sem var boðað af ákefð fyrir hrun var ákveðin tegund af hluthafalýðræði, þar sem fólkið væri að kjósa með því að kaupa sér hlutabréf og eignaðist með því hlutdeild í atvinnlífinu. Og ein kenningin var sú að ekki þyrfti að breyta kvótakerfinu því almenningur myndi einfaldlega eignast hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum og verða þannig eigandi fiskveiðiauðlindarinnar.
Þetta gekk ekki alveg eftir. Margir töpuðu stórum fjárhæðum á íslenska hlutabréfamarkaðnum, fyrirtæki reyndar komu þangað inn og fóru út aftur, uns fáir voru eftir nema bankar og baskarar – það var frægt að hlutabréfavísitalan fór hæst í 9040 en endaði að mig minnir í 300.
Á þessum tíma var stundum talað um meirafíflskenninguna. Semsagt að á enda hlutabréfakeðjunnar sæti einhver sem keypti á háu verði síðast, stuttu fyrir hrun, og sæti svo uppi með tapið. Sá er meira fíflið eða kannski mesta fíflið.
Nú er aftur byrjaður söngur um að almenningur eigi að fara að fjárfesta í hlutabréfum. Þetta heyrist frá Viðskiptaráði sem heimtar nú að verði aftur veittur skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa.
Einhver gæti spurt: Hví ætti að veita skattaafslátt vegna þess fremur en annarra hluta sem gætu haft samfélagslega þýðingu eða varðað hag almennings?
En svo hringja viðvörunarbjöllur. Á hlutabréfamarkaðnum hérna hafa helst verið lífeyrissjóðir og svo „fagfjárfestar“ – sem sumir eru í því að „teika“ lífeyrissjóðina. Reynslan segir okkur að íslenskur hlutabréfamarkaður sé mjög ótraustur. Stundum heyrir maður sagt að hann sé „grunnur“. Er einhver ástæða til að ætla að almenningur eigi erindi þangað inn – nema þá til að tapa peningum um síðir?