Íslenska hryllingsmynd sumarsins 2017 nánast skrifar sig sjálfa. Ungt ferðafólk kemur á „camper“ bifreið í nokkuð afskekkta sveit. Íbúarnir eru í fyrstu sæmilega vingjarnlegir, en þó má greina einhverja tortryggni.
„Camper“ fólkið leggur bifreið sinni í dalverpi. Það spilar háværa tónlist, flissar og hlær, striplast eitthvað – og gengur örna sinna.
Kúkar og skilur bæði saur og pappír eftir á víðavangi.
Íbúarnir fylgjast með í fjarska, verða mjög þungir á svipinn, tuða sín á milli, þegar unga fólkið fer í kaupfélagið til að kaupa samlokubrauð og ost í sneiðum, má skynja að viðmótið er orðið allmiklu fjandsamlegra. Eitthvað hefur farið úr skorðum.
Um nóttina hefst svo röð vofveiflegra atburða, byrjar með skrítnum hjóðum og því að bíllinn hristist, endar auðvitað í algjörum hryllingi.
Vilji einhver gera þessa mynd, má hann eiga hugmyndina.