Frá því var sagt í morgunútvarpinu í morgun að 80 flug á viku yrðu milli Lundúna og Keflavíkur næsta vetur. Það er gríðarlegur fjöldi. Einnig sagði að Kínverjar væru stærsti farþegahópurinn í mörgum vélum sem hingað koma.
Kínverjar eru dálítið einkennilegir ferðamenn. Þeir fara saman í hópum og finnst mikilvægast að láta mynda sig á frægum stöðum. Á Santorini er gríðarlegur sægur af ferðamönnum frá Kína. Það eru miklar sögur af því hvernig þeir leigja sér mótorhjól eða fjórhjól og aka um vegina og valda sér og öðrum gríðarlegri slysahættu. Vegirnir á Santorini, sem eru býsna glæfralegir, máttu kannski ekki við þessu og maður óttast hreinlega að sumir kunni að aka fram af bjarginu.
Ég dvel á eyjunni Folegandros, sem er rúmlega 50 kílómetra frá Santorini, en hér sést aldrei ferðamaður frá Kína. Ég held ég hafi ekki séð einn einasta öll þau ár sem ég hef komið hingað. Eyjan er nokkuð úr alfaraleið – off the beaten track – það er nokkur fyrirhöfn að komast hingað og hjarðtúrisminn er enn fjarri.
Maður veit samt ekki á hverju er von á, það er talað um algjört metár í túrisma í Grikklandi og að tala ferðamanna verði jafnvel 30 milljónir.
Mynd frá Santorini, 11 kínversk pör að gifta sig í einu.