Það ber vott um að Frakkar sýna málefnum heimskautanna mikinn áhuga að Ségolene Royal hefur verið skipuð sendiherra heimskautasvæðanna, Norðurpólsins og Suðurpólsins. Royal var forsetaframbjóðandi í kosningunum 2007, tapaði þá fyrir Sarkozy. Hún hefur einnig verið umhverfisráðherra í Frakklandi – það er núorðið eitt áhrifamesta ráðuneytið þar í landi, sett til jafns og fjármála- og utanríkisráðuneyti.
Áður hefur gengt þessu embætti Michel Rocard, sem var fyrrverandi forsætisráðherra, einn áhrifamesti og mest heillandi stjórnmálamaður í Frakklandi, leiftrandi gáfumaður sem margir töldu að hefði með réttu átt að verða forseti. Rocard kom nokkrum sinnum til Íslands vegna þessa starfs síns. Hann lagði áherslu á friðsama og umhverfisvæna nýtingu Norðurheimskautsins – í anda sáttmálans sem gerður var um Suðurheimskautið á sínum tíma.
Því miður er hætta á að hlutirnir þróist í þveröfuga átt, að heimskautin verði vettvangur aukinnar hervæðingar, að skammsýn græðgi ráði ferð við nýtingu auðlinda þar og mikil spjöll fylgi því þegar ísinn hopar.
Hér má sjá viðtal við Michel Rocard úr Silfri Egils frá 2012