Það er svo með almenna launþega að þeir verða voða sjaldan fyrir „afturvirkni“ – þ.e. að komist sé að þeirri niðurstöðu að launin þeirra séu svo léleg að þurfi að leiðrétta þau langt aftur í tímann.
Launamenn fá sjaldnast það sem kallast „eingreiðsla“. Þeir fá hana sem hafa búið við alltof lök kjör um langt skeið – í mörgum tilvikum háttsettir embættismenn. Það hlýtur að vera gaman að fá „eingreiðslu upp á 4,7 milljónir eins og ríkisendurskoðanda hlotnaðist.
Fyrir það er til dæmis hægt að kaupa nýjan bíl eða fara í heimsreisu. Fyrir venjulegt fólk væri þetta eins og að vinna í lottói, en þar eru sigurlíkur sannarlega minni.
Það er Kjararáð sem kemst að slíkum niðurstöðum – og oft hafa menn furðað sig á úrskurðum þess. Verkalýðshreyfingin kvartar sáran og talar um „brostnar forsendur kjarasamninga“. En svo verður yfirleitt ekki neitt úr neinu hjá verkó – alþýðuforingjarnir gefa frá sér hljóð en svo þagnar það.
Ein réttlætingin fyrir úrskurðum Kjararáðs er sú að það sé verið að jafna kjör miðað við það sem gengur og gerist hjá þeim sem gegna „sambærilegum störfum“ á einkamarkaði. En er þá nokkurn tíma spurt um frammistöðu í starfi? Þeir sem vinna hjá einkafyrirtækjum eiga á hættu að missa vinnuna ef þeir standa sig ekki.
Við getum til dæmis tekið ríkisendurskoðandann sem fékk háu eingreiðsluna. Stofnun hans varð nýlega uppvís að ótrúlegu fúski þegar hún var fengin til að meta svik í bótakerfinu. Niðurstöður Ríkisendurskoðunar voru upptakturinn að mikilli umræðu um svindl og svínarí meðal bótaþega. En svo var farið að athuga nánar og Kastljós upplýsti að skýrslan var lausleg þýðing á danskri skoðanakönnun.
Hefði máske mátt lækka ríkisendurskoðandann í launum í ljósi þessa?