Það er farið að örla á því að sveitarstjórnarkosningar á næsta ári setji mark sitt á stjórnmálin. Sjálfstæðisflokknum í Hafnarfirði mistókst að koma í gegn hugmyndum um tvö ný knatthús í hinum mikla íþróttabæ Hafnarfirði, þar virðist sportið vera upphaf og endir tilverunnar.
Og Bjarni Benediktsson setur ofan í við samstarfsflokkana í ríkisstjórn vegna Reykjavíkurflugvallar. Þetta kemur í framhaldi af yfirlýsingum Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra um bæði Reykjavíkurflugvöll og uppbyggingu stofnbrauta í Reykjavík. Í síðara málinu nýtur hann atfylgis vegamálastjóra – sem er kominn í stríð við borgarstjórnina í Reykjavík.
Það dylst engum hvar Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að marka sér stöðu í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram næsta vor. Og líklega verður Framsóknarflokkurinn á svipuðu róli. Það verður lögð áhersla á greiðari bílaumferð og að flugvöllurinn fari ekki.
Það er svo spurning hvaða árangur verður af þessu, skoðanakannanir um fylgi í borginni eru merkilega stöðugar, það eina sem gerist er að fylgi hreyfist innan meirihlutans. Ég hef áður skrifað að Vinstri græn ættu að geta náð borgarstjóraembættinu í fyrsta sinn – ef þau kæra sig um.
Staða Bjartrar framtíðar – og um leið Viðreisnar – er dálítið einkennileg. BF situr í meirihluta í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi, en teikn eru á lofti um að fylgið hrynji í kosningunum. BF er undir áhrifum frá gnarrismanum í borgarstjórn – Óttarr Proppé, formaður flokksins, var nánasti samstarfsmaður Jóns Gnarr í borgarstjórninni. Og BF hefur starfað með Degi B. Eggertssyni í borginni síðustu sjö árin.
Í skipulagsmálum, sem verða líklega helsti ásteytingarsteinninn í kosningunum, er BF (og hluti af Viðreisn) semsagt á línu meirihlutans í borginni, þ.e. þétting byggðar, flugvöllurinn burt, áhersla á aðra samgöngumáta en einkabílinn. Stórar yfirlýsingar ráðherra Sjálfstæðisflokksins um þessi mál eru óþægilegar fyrir samstarfsflokkana sem eiga þegar undir högg að sækja.