Við íbúarnir í Miðbænum í Reykjavík höfum stundum á orði að þar sjáist aldrei lögga. Jú, einstöku sinnum sést lögreglubíll þjóta hjá, en það virðist vera nokkurn veginn liðin tíð að gangandi lögreglumenn séu á ferli í bænum. Ég segi reyndar eins og er að ég upplifi ekki sérstakt óöryggi í hinni friðsömu borg í friðsælasta landi heims, en þetta segir samt sína sögu.
Það hefur verið skorið rækilega niður hjá lögreglunni eins og kemur fram í fréttum síðustu daga. Frá þessu segir í Ríkisútvarpinu. Þar er talað um lögreglumenn sem leiti sér að öðrum störfum, t.d. sem flugliðar – og svo segir:
Tæplega 780 lögreglumenn störfuðu á landinu árið 2007. Tíu árum síðar voru þeir um sjö hundruð, hafði þeim fækkað um 73. Á sama tímabili fjölgaði landsmönnum um tæp tuttugu og fimm þúsund og fjöldi erlendra ferðamanna margfaldaðist.
Og ennfremur:
Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað um 57 á 10 árum. Það þýðir að árið 2007 var einn lögreglumaður á hverja 565 íbúa en tíu árum síðar var einn lögreglumaður á hverja tæplega sjöhundruð og fjörutíu íbúa.
Þarna höfum við samanburð við Bretland, þar er vissulega uppi hryðjuverkaógn sem er örugglega allmiklu minni hér á Fróni. Þar hefur líka verið skorið niður í lögregluliðinu og þetta var eitt af því sem kom Theresu May í koll í kosningunum í síðustu viku. Hún talaði um öryggi borgaranna í herskáum tóni, en efndir höfðu ekki fylgt orðum – það var hún sem var innanríkisráðherra á tíma niðurskurðar í lögreglunni.
Þetta er býsna mótsagnakennt þegar svo kemur að því að búa lögregluna vopnum. Færri lögreglumenn – en með byssur. Er það stefna sem við teljum ástæða til að fylgja?
Sé einhvern fjandskap að finna í garð lögreglunnar, eins og hér er rætt, þá hlýtur hann fyrst og fremst að vera hjá þeim sem sífellt skera niður í löggæslunni.
Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórmálafræði, færir okkur ágætis sjónarmið innan úr akademíunni um það hvernig mætti standa að ákvörðunum um löggæslu án þess að menn hlaupi ofan í skotgrafir:
Mér finnst leitt að sjá hvernig spilað er með ótta fólks í umræðunni um vopnaða sérsveit á fjöldasamkomum – öflugasta tæki stjórnmálamannsins og það ósvífnasta. Einnig ótrúlega sorglegt að umræðan hafi (enn og andskotans aftur) fallið í flokkspólitískar skotgrafir. Hér er um að ræða mál sem varðar f.o.f. annars vegar hugmyndir Íslendinga um þjóð sína, sem skiptir marga þeirra mjög miklu máli og stendur nær kjarna þeirrar hugmyndar, þ.e. hugmyndin að búa í „friðsömu landi“ og á hinn bóginn raunverulegur ótti fólks við hryðjuverkaárásir. Það er algjörlega sjálfsagt að ræða það án þess að fólki sé stillt upp í tvo hópa (naívistar og hervaldssinnar) og slíkt hefði átt að gera áður en ákvörðunin var tekin, en hún er ekki meitluð í stein svo við getum það enn. Ræðum staðreyndir um hryðjuverk, lærum að leggja hlutlaust mat á tölfræðilegar líkur á árás, fáum sjónarhorn lögreglunnar, ræðum hvernig vopnaburður lögreglu hefur þróast í löndunum í kringum okkur, skoðum þar sérstaklega Noreg sem áhugaverða undantekningu, heyrum hvaða önnur löggæsluúrræði koma til greina og hví þau eru ekki eins góð eða betri, útskýrum fyrir fólki hvernig hér togast á óttinn (og hvernig hann virkar) og hugmyndir okkar um þjóðina og fræðumst um rannsóknir á því hvaða áhrif vopnaburður hefur á samfélög.