Það er sérlega óæskileg þróun að skil milli auglýsinga og frétta og ritstjórnarefnis verði óskýrari. Það var lengi talað um eldveggi í þessu sambandi – þeir skyldu vera milli ritstjórna og auglýsingadeilda.
En nú lifum við í heimi þar sem er sagt að séu tveir til þrír pr-menn á hvern fréttamann. Og leiðirnar sem hafa opnast fyrir auglýsingar inn í fréttaefni og inn á alls kyns miðla eru miklu fleiri og fjölbreyttari en áður. Það er líka erfiðara að varast ísmeygilegar aðferðir til auglýsinga og markaðssetningar.
Hér er til dæmis sagt frá fyrirtæki sem heitir Ghostlamp. Samkvæmt myndinni hefur því verið gert svo hátt undir höfði að það hefur fengið rými á fundi sem heitir Icelandic Startups. Ef markamá fréttina tengir Ghostlamp „saman íslensk fyrirtæki og svokallaða áhrifavalda í markaðsskyni“.
Á mannamáli þýðir þetta að fyrirtækið fær frægt fólk – eða hálffrægt – a-,b, eða c-lista selebs, til að auglýsa vöru. Þetta er ekkert flóknara en það. Hefur þekkst lengi. Og fræga fólkið fær svo eitthvað í staðinn. Ronald Reagan auglýsti Chesterfield á sínum tíma, Bessi Bjarnason Kórónaföt. En við visssum að það voru auglýsingar.
En forsvarsmaður fyrirtækisins segist vera „brautryðjandi“. Öllu má nafn gefa.
Í þessu tilviki fékk fyrirtækið fólk til að setja eitthvað um kökudeig á samskiptamiðla. Neytendastofa segir að þetta hafi verið duldar auglýsingar – manni finnst reyndar að þær séu ekkert sérlega duldar. En forstjóri Ghostlamp segir að „leiðbeiningar hafi ekki verið nógu skýrar á þeim tíma þegar við keyrðum herferðina“.
Er það?
Neytendastofa segir að engum leiðbeiningum hafi verið breytt. Þær eru hérna og virka býsna skýrar og auðskiljanlegar.
Texti á heimasíðu Ghostlamp. Það verður að segja eins og er að tungumálið á þessu er frekar skrítið og ekki alveg auðskilið hvað átt er við, en í grundvallaratriðum virðast fyrirtæki þarna eiga að geta komist í tengsl við „skapandi“ (sic!) fólk sem síðar talar vel um vörur þeirra og þjónustu – og fær svo greitt fyrir.
Þetta er nánast dýstópísk sýn, að geta ekki vitað nema næsti maður sé gangandi auglýsing.