Á vef breska blaðsins The Independent má lesa um átta staði þar sem ferðamenn eru hataðir. Það er kannski stór fullyrðing, en þetta eru staðir þar sem ferðamennska er komin út yfir allan þjófabálk og er farin að valda íbúunum verulegum ama.
Staðirnir sem þarna eru nefndir eru Feneyjar á Ítalíu, Koh Khai eyjar í Thailandi, Bhutan, Barcelona á Spáni, Amsterdam í Hollandi, heitar laugar í Japan, Santorini á Grikklandi, Cinque Terre á Ítalíu og Arlington í Texas.
Sumir af þessum stöðum eru farnir að takmarka heimsóknir ferðamanna eða umsvif í kringum ferðamennsku. Feneyjar banna skyndibitastaði og á Santorini er kominn kvóti á ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum og dvelja ekki nema stutta hríð á eyjunni. Barcelona takmarkar útleigu á íbúðum til ferðamanna.
Sjálfur var ég svo heppinn – ef má taka svo til orða – að koma á suma af þessum stöðum áður en þeir urðu svo vinsælir. Þegar ég kom fyrst til Feneyja gekk ég nánast einn um göturnar, jú þarna var fólk en líka rottur sem ég sá skjótast milli húsa. Þegar ég kom fyrst til Barcelona voru hverfin í kringum Römblurnar eiturlyfja- og lastabæli, í einni götunni man ég að var transsexúal vændisfólk. Manni var ekki alveg sama að fara um sum svæðin.
Ég myndi varla láta mér til hugar koma að fara á suma af þessum stöðum lengur. Til Santorini kem ég að minnsta kosti tvisvar á ári vegna þess að þar er samgöngumiðstöð við aðrar eyjar. Þar þarf ég stundum að bíða tímum saman eftir bát og eða flugvél. Hef síðustu árin fundið það ráð að leigja mér bíl og keyra á eina afskekkta staðinn á eyjunni – ég segi engum hvar hann er. Á Santorini er líka einn ömurlegasti flugvöllur í Evrópu, en það stendur kannski til bóta nú þegar er búið að einkavæða hann – hann getur altént ekki versnað.
Santorini er vissulega mikið undur en ég myndi ekki ráðleggja neinum að fara þangað. Mæli frekar með fáfarnari stöðum.