Það eru alls konar skrítnar hjómsveitir og skemmtikraftar að koma í Hörpu þessa dagana. Skýringin er líklega sú að þarna er tónleikasalur sem rúmar talsverðan fjölda, það er hægt að halda tónleika af millistærð – með listamönnum sem eru of stórir fyrir Rosenberg en of litlir fyrir Laugardalshöllina.
Í sumar er í Hörpu til dæmis boðið upp á Kool & the Gang og einhverjar leifar af Dr. Hook & the Medicine Show. Svo er þarna á dagskrá Engellbert Humperdinck – sá söngvari er nokkuð við aldur, en hann leit nokkuð vel út þegar ég hitti hann á strönd á eyju í Karíbahafinu fyrir tíu árum. Þá var hann í mjög rauðri sundskýlu.
Í svipaðan flokk myndi maður líklega setja hljómsveitina Kansas. Það er ekki alveg auðsætt að tónleikagestir muni slást um miða á hana. Kansas átti að halda tónleika í Hörpu í byrjun júní, en nú hefur verið tilkynnt að hljómsveitin sé hætt við – vegna hryðjuverkahættu!
Það hljómar náttúrlega eins og fyrirsláttur nema þeir séu svona miklar heybrækur í Kansas?
En svo er reyndar von á sjálfum Herbie Hancock, hann er einn af risum djasstónlistarinnar. Og líka gítarleikaranum stórkostlega Pat Metheny. Og það verður sjálfsagt ágæt aðsókn á píanóleikarann Ludovico Einaudi – þótt ég verði að segja að mér finnst tónsmíðar hans vera hálfgert moð.
Kansas. Þora ekki til Evrópu vegna hryðjuverkahættu.