Hér eru þrjár myndir frá gömlum tíma sem sýna allar sömu götuna, Kirkjustræti. Fyrri myndin er litað póstkort. Ártalið kemur ekki fram en líklega er þetta tekið á fyrsta eða öðrum áratug 20. aldar. Næst okkur sést hús sem er gult á lit á myndinni, það kallaðist Ásbyrgi – þar við hliðina glittir rétt í gamla hús Hjálpræðishersins. Rauða húsið á móti er gamla Reykjavíkurapótek sem sneri út að Thorvaldsenstæti og var þar til húsa til 1930. Vð hlið þess er garðurinn sem Schierbeck landlæknir ræktaði, Fógetagarðurinn, fyrsti trjágarðurinn í Reykjavík
Það sést út á Austurvöll milli húsanna og upp í holtin. Stóra húsið, hvítt að lit, sem blasir við fyrir aftan turninn á Dómkirkjunni er Amtmannshúsið, efst á Amtmannsstígnum, sem var rifið 1972. Sjálfum finnst mér gaman að segja fá því að þarna sést í húsið í Skólastræti þar sem ég bý, í það hefur verið grænblár litur á myndinni. Alþingishúsið er hins vegar furðulega rauðleitt.
Skolprennan meðfram götunni vekur svo athygli. Eins og ég hef áður sagt, lyktin hefur trauðla verið góð.
Hér á þessari ljósmynd sem er eftir Magnús Ólafsson og tekin um 1910 sést Kirkjustrætið frá aðeins öðrum sjónarhóli. Þarna er Ásbyrgi og hús Hjálpræðishersins. Guðjón Friðriksson segir í alfræði Reykjavíkur að Ásbyrgi hafi verið þrílyft timburhús sem fékk heiti af samnefndu kaffihúsi sem þar var rekið. Húsið var reist 1898 en brann 1947. Hús Hjálpræðishersins var kallað Herkastalinn en það var rifið 1916 og reist stórhýsi í staðinn sem gekk undir sama nafni.
Þriðja myndin er áberandi fornfálegust. Hún er örugglega frá 19. öld. Þarna sést fólk ganga eftir Kirkjustrætinu, líklega er það að koma úr messu í Dómkirkjunni eða jarðarför. Við sjáum á myndinni að það er kalt í veðri en nokkuð bjart. Gatan er holótt, það eru pollar, hefur líklega verið svað stundum. Konurnar sem eru upp til hópa í þjóðlegum búningum eru vafðar inn í sjöl og klúta.
En fremst á myndinni má sá fyrirmenni, karl með pípuhatt og staf, gott ef hann er ekki með hvíta hanska. Og svo eru nær Alþingishúsinu tveir menn sem manni sýnist að séu í einkennisbúningum. Þessir karlar leiða konur sem eru líklega ekki í íslenskum klæðnaði. Ætli megi greina hvaða fólk þetta er?
(Tvær þessara mynda birtust á vefnum Gamlar ljósmyndir en sú þriðja ekki.)