Á vef Bloomberg fréttaveitunnar má lesa úttekt á sænska hagkerfinu sem byggir á háum sköttum, sterkum verkalýðsfélögum og jöfnuði, eins og segir í greininni. Í fyrirsögn er talað um efnahagslegt kraftaverk í Svíþjóð. Sænska aðferðin er gerólík því sem Donald Trump boðar í Bandaríkjunum – en hún virkar svo vel að efnahagur Svíþjóðar blómstrar, þjóðin er mjög virk á vinnumarkaði, það er afgangur af fjárlögum og skuldir ríkisins eru mjög litlar.
Greinin byggir meðal annars á viðtali við Magdalena Anderson, fjármálaráðherra Svíþjóðar. Sósíaldemókratar hafa verið við völd í Svíþjóð síðan 2014, áður var nokkuð langt skeið miðju-hægristjórna. En stjórnmálaflokkar í Svíþjóð eru ekki gjarnir á að kollvarpa hlutum. Skattar hafa hins vegar farið hækkandi í tíð kratanna og í greininni segir að samtök atvinnurekenda og bankar telji að skattar megi alls ekki hækka meir, það sé komið nóg. Anderson segir að ekki verði þörf á frekari hækkunum, en sænska módelið sýni að hægt sé að hafa háa skatta, mikla atvinnu og hagvöxt. Hún segir að heilbrigðisþjónusta og menntun án tillits til afkomu fólks sé lykilatriði í góðu hagkerfi. Og að þarna sé lykillinn að því að takast á við ógnir og óstöðugleika hnattvæðingarinnar.
En um leið segir í greininni að Svíþjóð hafi raunsæja afstöðu til kapítalismans og fyrirtæki sem ekki spjari sig fái að fara á hausinn.
Síðustu árin hafa verið tími uppgangs í Svíþjóð. Fá hagkerfi hafa aðlagað sig jafn vel að nútímanum. Bloomberg birtir gröf þar sem má sjá að hagvöxtur í Svíþjóð hefur verið meiri en í flestum öðrum löndum samanlagt síðustu tuttugu árin og að laun í Svíþjóð hafa næstum tvöfaldast meðan þau hafa lækkað í Bandaríkjunum. Það sem vekur athygli þarna er afkoma 1 prósentsins sem þénar mest og svo hinna 90 prósentanna sem þéna minna.